Verkfallið bitnar á læknanemum

Á miðnætti hófst önn­ur lota verk­fallsaðgerða Lækna­fé­lags Íslands.
Á miðnætti hófst önn­ur lota verk­fallsaðgerða Lækna­fé­lags Íslands. Morgunblaðið/Eggert

„Við erum svolítið á línunni. Auðvitað stöndum við með okkar verðandi stétt og vonum að þau semji, en aftur á móti viljum við líka standa vörð um kennsluna,“ segir Ragn­hild­ur Hauks­dótt­ir, formaður Fé­lags lækna­nema í sam­tali við mbl.is.

Verk­fallsaðgerðir Lækna­fé­lags Íslands hafa mikil áhrif á nem­end­ur á fjórða, fimmta og sjötta ári í lækn­is­fræði í Há­skóla Íslands sem stunda verk­nám á Land­spít­al­an­um.

Að loknu þriggja ára bók­námi hefja nem­end­ur á fjórða ári verk­nám á vökt­um á spít­al­an­um. Næstu þrjú árin fylgja þeir lækn­um á flest­um deild­um, læra og setja sig í verk­legu hlið starfs­ins.

Á miðnætti hófst önn­ur lota verk­fallsaðgerða Lækna­fé­lags Íslands. Lækn­ar á kvenna- og barna­sviði og lækn­ar á rann­sókn­ar­sviði fara í tveggja sól­ar­hringa verk­fall og á sama tíma verða lækn­ar á heilsu­gæslu­stöðvum og heil­brigðis­stofn­un­um um landið í verk­falli. Á morgun hefjast einnig verk­fallsaðgerðir lækna í Skurðlækna­fé­lagi Íslands.

Getu lent í tvöföldu verkfalli

Þá daga sem boðað verk­fall stend­ur yfir mega nem­ar á þeim deild­um þar sem það stend­ur yfir ekki mæta á spít­al­ann og fylgja lækn­un­um, kenn­ur­um sín­um. Öll kennsla þar sem sjúk­ling­ar koma ná­lægt er óheim­il.

Ragnhildur segir verkfallið hafa mikil áhrif á nemana, sérstaklega þar sem nú líði brátt að lokum annarinnar. Í síðustu verkfallslotu, sem hófst þann 27. október, hafi próf frestast og áhyggjur þar af leiðandi skapast um framhaldið. 

Verkfallsaðgerðir lækna eru þó ekki þær einu sem valda áhyggjum hjá læknanemum þessa dagana, en Félag prófessora við ríkisháskóla hafa einnig boðað til verkfalls. Ef af því verður mun það hafa mikil áhrif á prófatímabilið fyrir jólin, og eiga læknanemar því á hættu að próf þeirra frestist. „Það er yfirvofandi tvöfalt verkfall á okkur þessar vikurnar svo þetta er ansi flókin staða.“

„Gerum það sem við getum gert

„Þegar það er verkfall á deild þá mætum við ekki, en við þurfum samt sem áður að klára öll verkefnin okkar og taka allar vaktir svo þetta er rosalega erfitt,“ segir Ragnhildur. Þá segir hún verknám á sumum deildum mjög stutt og því gefi að skilja að ef fólk missi úr heilu dagana þá missi það af ansi miklu efni. 

Tak­ist ekki að semja á tíma­bil­inu sem verk­fallsaðgerðirn­ar standa yfir gætu sum­ir nem­anna misst um 40% tím­ans sem þau eiga að verja við verk­legt nám á deild­un­um.

Ragnhildur segir læknanemana þó styðja læknana heilshugar í sinni kjarabaráttu, og leggi þeim lið að bestu getu. „Við gerum það meðal annars með því að verðandi læknakandídatar og læknanemar á fjórða og fimmta ári sem sinna stöðum á spítalanum á sumrin og eru í afleysingum á veturna, munu ekki ráða sig á spítalann næsta sumar ef samningar nást ekki fyrir þann tíma,“ segir hún. „Við gerum það sem við getum gert.“

Verkfall hefur mikil áhrif á verklega kennslu læknanema.
Verkfall hefur mikil áhrif á verklega kennslu læknanema.
mbl.is