400 rannsóknir á rannsóknarsviði Landspítalans voru felldar niður í dag og í gær. Þetta eru meðal annars myndgreiningar, röntgenmyndir, tölvusneiðmyndir, segulómskoðanir, blóðrannsóknir, veirurannsóknir og sýnatökur.
„Þessi þjónusta er þannig að við erum að þjónusta meira og minna allt landið,“ segir Óskar Reykdalsson, framkvæmdastjóri á rannsóknarsviði, í samtali við mbl.is aðspurður um áhrif verkfallsins á sviðið.
Óskar segir að þetta hafi meðal annars þau áhrif að læknir treysti sér ekki til að framkvæma aðgerðir þar sem niðurstöður rannsókna liggja ekki fyrir í öllum tilvikum. Mun færri röntgenmyndatökur verða gerðar í þessari viku en síðustu, þegar ekki var verkfall, en um helmingur þeirra hefur verið felldur niður þegar þetta er skrifað.
„Þá tekst heldur ekki að lesa úr öllum rannsóknunum sem gerðar eru,“ segir Óskar. „Hluti af þeim rannsóknum er ekki svarað strax, heldur þegar líður á vikuna, þegar tími gefst.“