Margir hafa leitað eftir þjónustu á heilsugæslunni í Efra-Breiðholti í dag og í gær. Bæði er óskað eftir lyfjaendurnýjunum og viðtölum við lækna. Aðeins yfirlæknir er við störf í dag þar sem læknar á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðinu eru í verkfalli.
Samninganefnd Læknafélags Íslands fundar með samninganefnd ríkisins kl. 16 í dag.
Að sögn yfirlæknis á stöðinni er heldur minna að gera en á venjulegum degi. Þó virðist vera eitthvað um að fólk hafi ekki áttað sig á því að læknar á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins hafi lagt niður störf og eru sumir óánægðir með að geta ekki fengið viðtöl eða aðra þjónustu.
Yfirlæknir sinnir bráðatilvikum en þó hefur ekki komið til þess í dag að hann hafi þurft að sinna sjúklingum.
Fullbókað var í alla tíma hjá læknum á heilsugæslunni í Grafarvogi í dag og í gær og misstu því margir af viðtali við lækni. Aðspurður telur yfirlæknir stöðvarinnar, Guðbrandur Þorkelsson, að fólk hafi hugsanlega talið að deilan myndi leysast og því hafi það ekki hikað við að panta tíma.
„Fólk er ósátt en mér heyrist við njóta mikillar samúðar. Fólk virðist skilja þetta mjög vel,“ segir Guðbrandur í samtali við mbl.is.