Pakistanskur dómstóll hefur dæmt fjóra til dauða fyrir að hafa barið þungaða konu til bana fyrir að hafa gifts manni sem þeim hugnaðist ekki.
Farzana Parveen var þrítug að aldri þegar hún var barin til bana með múrsteinum og prikum í maí fyrir utan hæstarétt í Lahore. Lögreglan hefur neitað því að hafa staðið aðgerðarlaus hjá á meðan unga konan var drepin af ættingjum sínum.
Það voru faðir hennar, bróðir, frændi og fyrrverandi unnusti sem voru dæmdir til dauða. Annar bróðir hennar var dæmdur í tíu ára fangelsi.
Parveen hafði verið fyrir hæstarétti að bera vitni til að verja eiginmann sinn fyrir ásökunum af hálfu ættingja hennar. Þeir sökuðu eiginmanninn, Muhammad Iqbal, um að hafa rænt henni. Hún hafði hins vegar áður borðið vitni um að hún hafi gifst honum af fúsum og frjálsum vilja.
Samkvæmt BBC segir lögregla að um tuttugu fjölskyldumeðlimir Parveens og 110-15 úr fjölskyldu Iqbals tóku þátt í átökunum milli fjölskyldnanna. Lögreglan heldur því fram að Parveen hafi verið látin þegar lögreglu bar að.
Eftir andlát hennar var upplýst að Iqbal hafi myrt fyrri eiginkonu sína sex árum áður svo hann gæti kvænst Parveen.
Sonur Iqbals af fyrsta hjónabandi, Aurangzeb, sagði í samtali við BBC í maí að ættingjar hans hafi fengið hann til þess að fyrirgefa föður sínum en það var nauðsynlegt svo hægt væri að fá hann lausan úr fangelsi.
Eiginmaður Parveens, Mohammad Iqbal, viðurkenndi í samtali við AFP í maí að hafa kyrkt fyrri eiginkonu sína. „Ég var ástfanginn af Farzana og myrti fyrri eiginkonu mína vegna ástar minnar á henni (Farzana Parveen).“
Á hverju ári eru hundruð svokölluð „sæmdarmorð“ framin í Pakistan. Þetta mál vakti mikla athygli og blandaði forsætisráðherra landsins, Nawaz Sharif, sér í umræðuna og sagði morðið algjörlega óásættanlegt.