Sala á byssum hefur tekið kipp í Ferguson í Bandaríkjunum að undanförnu. Íbúar bæjarins búa sig nú undir hugsanleg mótmæli og óeirðir en niðurstöðu kviðdóms í máli Michaels Brown, sem skotinn var til bana af lögreglumanni í úthverfi St. Louis, er að vænta eftir miðjan nóvember.
Sky-sjónvarpsstöðin ræðir meðal annars við Jeana Moore, viðskiptavin í verslun í Ferguson sem selur byssur. „Ég vil frekar geta tekið í gikkinn en hringt í neyðarlínuna og vonað að þeir komi hingað áður en maðurinn kemst inn um gluggann minn,“ segir hún.
Kviðdómur mun komast að niðurstöðu um hvort lögreglumaðurinn verði ákærður. Í tilvikum sem þessum er starf kviðdómsins oft aðeins formatriði og kemst hann iðulega að sömu niðurstöðu og saksóknari hefur þegar lagt til.
En þetta mál er öðruvísi. Kviðdómurinn hefur litið yfir sönnunargögn málsins og þá hefur lögregluþjóninn einnig borið vitni.
Angela Bush býr nálægt staðnum þar sem Brown var skotinn og hún býr sig undir það versta. „Þetta verður slæmt, þetta verður mjög slæmt.“