Kallar á endurskipulagningu

Þá daga sem verkfallsaðgerðir standa yfir er starfsemi lyflækningasviðs eins …
Þá daga sem verkfallsaðgerðir standa yfir er starfsemi lyflækningasviðs eins og um helgar, þ.e. í lágmarki. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Í dag standa verkfallsaðgerðir lækna yfir á lyflækningasviði Landspítalans og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þrátt fyrir að aðeins sé um að ræða þriðja verkfallsdag á lyflækningasviði, hafa aðgerðirnar þegar haft töluverð áhrif, sérstaklega á biðlista, enda telur hver dagur þar sem þjónustan er í lágmarki.

„Biðlistarnir lengjast gífurlega, eins og í hjartaþræðingu og sérhæfðar hjartaaðgerðir,“ segir Hlíf Steingrímsdóttir, framkvæmdastjóri lyflækningasviðs. „Þetta eru ekki opnar aðgerðir heldur aðgerðir sem eru gerðar með þræðingartækni, og þar lengjast biðlistarnir mjög í verkfallinu. Þeir voru nokkuð langir fyrir og þetta er mikið áhyggjuefni,“ segir hún.

Á meðan verkfallsaðgerðir standa yfir er starfsemi lyflækningasviðs með þeim hætti að yfirlæknar eða staðgenglar þeirra sinna dagvinnu á legudeildum, en unglæknar eru mun færri en á hefðbundnum degi og vinna aðeins á vöktum og bráðamóttökum. Allar göngudeildir eru lokaðar og starfsemi dagdeilda verulega takmörkuð en allri bráðaþjónustu er sinnt.

En hvernig gengur að vinna biðlistana upp þegar verkfallsaðgerðum lýkur?

„Það er svolítið mismunandi eftir starfsemi,“ segir Hlíf. Hún bendir á að umsvif lyflækningasviðs séu umtalsverð og það sé mismunandi hversu auðvelt það er að endurbóka tíma. „Víðast hvar eru tímarnir svo þétt bókaðir að það er snúið að vinna biðlistana niður, eins og í hjartaþræðingum; þar var náttúrlega bókaði í alla tíma. Og þar erum við með ákveðinn forgangslista yfir þá sjúklinga sem þurfa að vera í forgangi og þessar aðgerðir kalla á að það sé farið aftur yfir forgangslistana; það þarf að endurraða og endurskipuleggja tímana sem þegar er búið að bóka í. Þannig að þetta getur verið svolítið snúið.“

Hlíf segir að á sumum deildum raskist starfsemin minna en annars staðar, t.d. á krabbameinsdeildinni, þar sem sjúklingar fá sína skipulögðu meðferð. Hún segir að það muni hins vegar taka tíma að vinda ofan af áhrifum verkfallsins þegar því lýkur.

Ljóst er að verkfallið hefur áhrif á fjölda fólks sem þarf á þjónustu spítalans að halda en Hlíf segir að svo virðist sem fólk taki aðgerðunum með yfirvegun. „Ég hef heyrt það frá þeim sem eru í beinum samskiptum við sjúklinga að það sé í raun alveg ótrúlegt hvað fólk tekur þessu með miklu jafnaðargeði. En lýsir auðvitað áhyggjum sínum, sem eru miklar víða,“ segir hún.

mbl.is