Karlmaður sem myrti starfsmann á bensínstöð í Kansas árið 1994, á meðan stjúpdóttir fórnarlambsins horfði á, var tekinn af lífi í dag. Þetta er níunda aftakan sem fram fer í Missouri í ár. Ekki hafa verið fleiri aftökur í ríkinu frá árinu 1999.
Taylor skaut Robert Newton til bana er hann rændi bensínstöð í bænum Independence. Taylor reyndi einnig að skjóta átta ára stjúpdóttur Newtons en byssan stóð á sér.
Taylor hafði beðið ríkisstjórann um náðun en því hafnaði hann.
Samkvæmt málsgögnum ákváðu Taylor, hálfbróðir hans og hálfsystir að ræna bensínstöðina hinn 14. apríl árið 1994. Newton var þar að störfum og stjúpdóttir hans með honum í vinnunni.
Taylor kom inn í verslunina, miðaði byssu á Newton og bað hann að setja peninga í poka. Newton hlýddi því og hálfbróðir Taylors fór með peningana út í bíl.
Taylor skipaði síðan Newton og dóttur hans að fara inn í bakherbergi á bensínstöðinni. Newton bað Taylor að skjóta sig ekki fyrir framan dóttur sína en Taylor skaut hann engu að síður í höfuðið. Þegar honum tókst ekki að skjóta stúlkuna læsti hann hana inni í herbergi. Þremenningarnir óku svo af vettvangi.
„Hann beindi byssu að henni. Það kom ekkert skot. Ef það hefði komið skot værum við að fást við tvöfalt morð,“ hefur AP-fréttastofan eftir Michael Hunt aðstoðarsaksóknara.
Vitnisburður stúlkunnar skipti sköpum í því að upplýsa málið.
Taylor var handtekinn viku eftir morðið.
Í umsókn Taylors um náðun kom m.a. fram að kviðdómur hefði ekki komist að niðurstöðu í morðmálinu á sínum tíma. Dómari hefði því dæmt hann fyrir glæpinn. Málið var hins vegar tekið fyrir að nýju og í seinna skiptið var kviðdómurinn eingöngu skipaður hvítu fólki en Taylor var svartur. Sá kviðdómur dæmdi Taylor til dauða.