Í dag og á morgun, 24. og 25. nóvember, munu verkfallsaðgerðir lækna standa yfir á aðgerðasviði og flæðisviði Landspítala. Öllum bráðatilfellum verður sinnt en gera má ráð fyrir að verkfallið hafi áhrif á alla aðra starfsemi, að því er fram kemur á vefsvæði Landspítala.
Undir flæðisvið falla m.a. bráðamóttaka, endurhæfingardeildir og öldrunardeildir, en aðgerðasviði tilheyra m.a. gjörgæsla, skurðstofur, speglanir, svæfing og blóðbanki.
Samkvæmt tilkynningu á vef LSH verða áhrif á flæðissviði þessi helst:
- Bráðatilvikum verður sinnt en biðtími á bráðamóttöku fyrir þá sem hafa minniháttar áverka eða veikindi gæti lengst.
- Bókaðar endurkomur á bráða- og göngudeild falla niður.
- Fimm daga deild á Landakoti verður lokuð.
- Klínísk kennsla fellur niður.
- Starfsemi á Grensási mun að mestu haldast óbreytt.
Áhrif á aðgerðasviði:
(Starfsemi bráðalegudeilda verður eins og um helgar. Öllum bráðatilvikum verður sinnt eins og venjulega þessa verkfallsdaga)
- Starfsemi á skurðstofum og svæfingardeildum miðast við bráðastarfsemi.
- Ekki verður hægt að undirbúa sjúklinga fyrir aðgerð á innskriftarmiðstöð (10E og B3) verkfallsdagana. Símainnskrift svæfingarhjúkrunarfræðinga verður í eðlilegum farvegi.
- Blóðbanki mun afgreiða allar bráðabeiðnir um blóð og blóðhluta 24. og 25. nóvember.
- Valrannsóknir sem þarfnast svæfinga dagana 24. og 25. nóvember falla niður.
- Aðgerðir tannlækna þriðjudaga falla niður vegna verkfalls svæfingarlækna.