Óeirðir og rán hafa verið framin í bænum Ferguson í St Louis í nótt eftir að kviðdómur ákvað að ákæra ekki lögreglumann sem skaut óvopnaðan svartan pilt til bana í ágúst.
Forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, og fjölskylda hins 18 ára gamla Michaels Brown, báðu fólk að halda ró sinni í kjölfar ákvörðunar kviðdómsins sem var kunngerð um kl. 2 í nótt að íslenskum tíma, átta í gærkvöldi að staðartíma.
Kviðdómurinn komst að því að lögreglumaðurinn hefði skotið Brown í sjálfsvörn.
Saksóknari í St. Louis, Robert McCulloch, sagði að lögreglumaðurinn Darren Wilson hefði skotið 12 sinnum eftir að hafa lent í „útistöðum“ við Brown. Því hefði kviðdómur ekki séð neina ástæðu til að ákæra hann.
Um leið og saksóknarinn hafði sagt frá niðurstöðunni brast móðir Browns í grát og hópur fólks, sem komið hafði saman til að fylgjast með, hrópað í sífellu: „hei, hei, hó, hó! Þessar drápslöggur verða að fara“ (e. Hey, hey, ho, ho! These killer cops have got to go).
Hópur reiðra mótmælenda kom sér svo fyrir fyrir utan lögreglustöðina þar sem Wilson starfaði og henti flöskum og grjóti. Þá var kveikt í lögreglubíl og verslanir í nágrenninu rændar.
Óeirðalögreglan brást við með því að beita táragasi og reyksprengjum. Átök brutust út á götum í úthverfum St. Louis. Þjófar brutust inn í farsímabúð í nágrenni lögreglustöðvarinnar og gengu berserksgang. Fréttamaður frá AFP-fréttastofunni slasaðist er hann varð fyrir hlut sem fleygt var.
Viðbrögð bæjarbúa hafa verið misjöfn en margir eru á því að ekki hafi verið von á annarri niðurstöðu. Pam Bailey er ein af þeim. Hún er á sjötugsaldri. „Ég hef búið hérna nógu lengi til að vita að svartir Bandaríkjamenn eru ekki álitnir manneskjur,“ segir hún.
Í kjölfar ákvörðunar kviðdómsins hófust mótmæli í mörgum öðrum bandarískum borgum en í morgun höfðu ekki borist fréttir af átökum í þeim.
Hópur var einnig kominn saman fyrir utan Hvíta húsið og hvatti stjórnvöld til að koma í veg fyrir kynþáttamisrétti frá lögreglumönnum.
Obama kom fram í sjónvarpsávarpi og hvatti alla til að sýna stillingu. „Foreldrar Michaels Browns hafa misst meira en nokkur annar. Við eigum að fara að óskum þeirra,“ sagði Obama og kom á framfæri þeirri von foreldranna að friður myndi haldast þrátt fyrir niðurstöðuna.
Þá beindi Obama orðum sínum einnig að lögreglunni: „Ég hvet lögregluna í Ferguson og á svæðinu til að sýna kærleika og hófsemi við að takast á við friðsöm mótmæli sem gætu orðið.“
En Obama talaði fyrir daufum eyrum íbúa Ferguson. Þar var ráðist á lögreglu með múrsteinum og flöskum og svaraði hún fyrir sig með því að beita táragasi.
„Þetta sýnir að réttarkerfið er spillt,“ sagði 21 árs gamall sölumaður í Ferguson. „Þetta sýnir að við eigum langt í land og að réttlætinu hefur ekki verið fullnægt í mörg, mörg ár. Það er tími fyrir friðsamleg mótmæli en það er líka tími fyrir óeirðir.“
Saksóknarinn McCulloch sagði fréttamönnum að kviðdómurinn hefði séð sönnunargögn sem sýndu fram á að lögreglumaðurinn hefði skotið Brown í sjálfsvörn í kjölfar ryskinga sem urðu á milli þeirra. Lögreglumaðurinn var á staðnum vegna tilkynningar um rán.
Saksóknarinn sagði að rifrildi hefði hafist á milli þeirra er Wilson sat í lögreglubíl sínum og Brown stóð við glugga hennar. Myndir sem teknar voru eftir atvikið sýna að Wilson var með lítið mar á hægri vanga.
„Á meðan á deilunum stóð skaut Wilson tveimur skotum á meðan hann var enn inni í lögreglubílnum,“ sagði saksóknarinn McCulloch.
Eftir að þessum tveimur skotum var skotið er talið að Wilson hafi farið út úr bíl sínum til að elta Brown sem hafi á einhverjum tímapunkti snúið sér við. Tíu skotum var skotið til viðbótar og ungi maðurinn lést. Sex skot hæfðu hann.
Í ágúst stigu sjónarvottar fram og sögðu að Brown hefði rétt upp hendur og hefði verið að gefast upp fyrir lögreglumanninum er hann var skotinn. En saksóknarinn segir að sönnunargögn bendi til þess, sem og aðrir vitnisburðir, að það hafi ekki gerst.
Fjölskylda Browns sendi frá sér yfirlýsingu í nótt þar sem sagði: „Við höfum orðið fyrir sárum vonbrigðum að sá sem drap barnið okkar þurfi ekki að horfast í augu við afleiðingarnar. Við biðjum alla af einlægni að mótmæla friðsamlega.“
Brown hafði ætlað sér í framhaldsnám. Í kjölfar skotárásarinnar hafa mikil mótmæli farið fram víða þar sem beðið er um að lögreglan breyti verklagi sínu.
Ríkissaksóknari Bandaríkjanna, Eric Holder, segir að enn sé í gangi önnur rannsókn á málinu á alríkisstigi. Sú rannsókn mun halda áfram.
Í Ferguson búa 21 þúsund manns, flestir svartir. Andrúmsloftið hefur verið rafmagnað í bænum síðustu daga og líklegt að hörð mótmæli muni halda áfram.