Nýr forseti Indónesíu hefur heitið því að grípa til aðgerða til að vernda frumskóga landsins og koma í veg fyrir að gengið verði enn frekar á mólendi. Eyðing skóga og nýting mós hefur orðið til þess að Indónesía er nú þriðji mesti losari gróðurhúsalofttegunda á meðal ríkja heims.
Joko Widodo tók við sem forseti Indónesíu fyrir um mánuði. Sem tákn um stefnubreytinguna slóst hann í hóp með íbúum á Súmötru sem lögðu bölvuð á skurð sem á að ræsa fram mólendi. Þar notaði hann tækifærið til að tilkynna að farið yrði yfir starfsemi skógarhöggsiðnaðarins.
Gróðureyðing er stærra vandamál í Indónesíu en í nokkru öðru ríki heims, þar á meðal Brasilía og Kongó þar sem rannsóknir benda til að hægi á eyðingunni. Rannsóknir hafa sýnt að allt að 80% eyðingu skóganna í Indónesíu sé til kominn vegna ólöglegs skógarhöggs. Skógunum er rutt í burtu, aðallega til að vinna pálmaolíu sem notuð er í allt frá matvörum til hreinlætisvara og til að vinna timbur.
„Ef [fyrirtækin] eru í raun að eyðileggja vistkerfið með því að rækta aðeins eina plöntutegund þá verður að eyða þeim. Þetta verður að stöðva, við megum ekki leyfa regnskógum okkar að hverfa út af einhæfri ræktun eins og á pálmaolíu,“ sagði Widodo.
Umhverfisverndarsamtök hafa fagnað frumkvæði nýja forsetans þar sem að núgildandi lög í landinu séu veik hvað varðar verndun mólendis og skóga og þeim sé illa framfylgt. Árið 2011 lögðu stjórnvöld tímabundið bann við nýjum samningum um skógarhögg. Því var hins vegar lítt fylgt eftir og hélt eyðing skóglendis áfram af krafti.
Fjallað var um eyðingu skóga í Indónesíu í þáttaröðinni „Years of Living Dangerously“ sem leikstjórinn James Cameron framleiddi. Þar fór leikarinn Harrison Ford til landsins til að kynna sér málið. Komst hann að raun um að spilling og aðgerðaleysi stjórnvalda gerði fyrirtækjum kleift að ganga á skógana og mólendi á ólöglegan hátt, jafnvel í þjóðgörðum. Hægt er að sjá þann hluta þáttanna sem fjölluðu um Indónesíu í myndbandinu hér fyrir neðan.
Frétt The Guardian af skógareyðingu í Indónesíu