Óvenjumikillar bjartsýni gætir fyrir viðræður ríkja heims um hnattræna hlýnun sem halda áfram í Líma í Perú á mánudag þrátt fyrir vísbendingar um að loftslagsbreytingar eigi sér þegar stað og að þær eigi eftir að fara versnandi. Ný markmið Bandaríkjamanna og Kínverja hafa m.a. kveikt von í brjósti manna.
Fulltrúar fleiri en 190 ríkja hittast á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í Perú og munu viðræður þeirra standa í tvær vikur. Markmiðið er að leggja drög að samkomulagi um loftslagsbreytingar sem þjóðarleiðtogar samþykki svo á loftslagsráðstefnu í París á næsta ári. Fram að þessu hefur þjóðum heims ekki auðnast að náð að sameinast um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum.
Heitstrengingar Xi Jinping, forseta Kína, og Baracks Obama, forseta Bandaríkjanna, fyrr í þessum mánuði um að draga hraðar úr losun gróðurhúsalofttegunda hefur gefið mönnum trú á að nú verði loks hægt að ná alþjóðlegu samkomulagi. Þessi tvö ríki standa saman fyrir um 40% losunar landa heims.
„Niðurlögum loftslagsbreytingar verður ekki ráðið af Bandaríkjunum og Kína en það verður sannarlega ekki gert án þeirra,“ segir Christina Figueres, loftslagsmálastjóri SÞ.
Fyrr á þessu ári samþykktu aðildarríki Evrópusambandsins ný losunarmarkmið fyrir árið 2030. Með ákvörðun Kínverja og Bandaríkjamanna hafa því þrír stærstu einstöku losendur gróðurhúsalofttegunda sett sér ný markmið í þessum efnum. Nú er beðið eftir því að aðrir stórir mengunarvaldar eins og Japanar, Rússar, Indverjar og Ástralir taki sig saman í andlitinu.
Lítil von er þó talin til þess að hægt verði að komast að niðurstöðu um lagalega bindandi samkomulag. Ríki eins og Bandaríkin hafa verið algerlega andsnúin slíkri leið og meirihluti repúblíkana í báðum deildum Bandaríkjaþings þýðir að ómögulegt væri að koma slíkum alþjóðasamningi í gegn þar.
Loftslagsnefnd SÞ gaf út skýrslu nú í haust þar sem kemur fram að draga þurfi hratt úr losun gróðurhúsalofttegunda það sem eftir er þessarar aldar. Um 95% líkur séu taldar á því að menn beri ábyrgð á hnattrænni hlýnun með bruna á jarðefnaeldsneyti á borð við olíu, gasi og kolum. Allt stefnir í að árið í ár verði það hlýjasta frá því að mælingar hófust.
Frétt AP-fréttaveitunnar af loftslagsviðræðunum í Líma