Létu þá finna fyrir beltinu

AFP

Tvær indverskar systur hafa vakið mikla athygli og fengið mikið lof fyrir vasklega framgöngu sína gagnvart þremur karlmönnum sem áreittu þær í strætó.

Létu þær Arti og Pooja Kumar, 22 og 19 ára, höggin dynja á mönnunum þremur í síðustu viku þegar þær voru í yfirfullum vagni á leið heim til sín í Rohtak í Haryana ríki.

Notuðu systurnar belti og og handafl á mennina sem svöruðu á móti á meðan farþegar í vagninu sátu aðgerðarlausir hjá. Það var síðan um helgina sem þunguð kona, sem var farþegi í vagninum, birti myndskeið á samfélagsmiðlum sem hún tók á síma sinn að mennirnir þrír voru handteknir. Myndskeiðið vakti mikla athygli og var það birt á 24 indverskum fréttastöðvum um helgina.

Talsmaður lögreglunnar í Rohtak, Ved Singh Nain, hét því að rannsókn málsins yrði flýtt en konurnar segja að mennirnir hafi byrjað að áreita þær eftir að þær höfnuðu þeim í vagninum á föstudag.

„Þeir byrjuðu að áreita okkur með klámfengnum og ruddalegum tilboðum, káfuðu á okkur og áreittu,“ sagði Pooja í vitðali við NDTV fréttastofuna í dag.

„Við gátum hreinlega ekki tekið þessu lengur og byrjuðum að lemja þá. Einn mannanna greip í hönd systur minnar og annar hélt um hálsinn á mér. Það var þá sem systir mín tók af sér beltið og hóf að berja þá,“ bætti hún við. 

Ríkisstjóri Haryana tilkynnti í dag að systurnar fengju 31 þúsund rúpíu hvor, 62 þúsund krónur, í verðlaun fyrir mótstöðuna og hann segist vonast til þess að þetta hafi þau áhrif að almenningur geri sér betur grein fyrir því hversu alvarleg staðan er.

mbl.is