Engin hreyfing varð á kjarabaráttu skurðlækna á fundi samninganefndar Skurðlæknafélags Íslands og samninganefndar ríkisins í dag.
Helgi Kjartan Sigurðsson, formaður Skurðlæknafélagsins segir engan gang á málinu og að það stoppi á því að samninganefnd ríkisins hafi hreinlega engin tilboð fram að færa.
„Við höfum lagt fram tilboð og það hafa svo sem farið einhverjar hugmyndir á milli en það er engin hreyfing af hálfu ríkisins,“ segir Helgi.
Félagsmenn kjósa um nýja verkfallsboðun nú um helgina. Verði hún samþykkt munu skurðlæknar vera í verkfalli frá janúar og fram að páskum ef samningar nást ekki.
Samninganefndirnar hittast næst á þriðjudaginn í næstu viku.