Sérfræðingar við bresku veðurstofuna hafa reiknað út að losun manna á gróðurhúsalofttegundum valdi því að nú séu tíu sinnum meiri líkur á öfgakenndum hitabylgjum í Evrópu en áður. Slíkar hitabylgjur eigi sér stað um það bil tvisvar á áratug og hugmyndir manna um hita komi til með að breytast.
Árið 2004 komst sami hópur að því að hitabylgja þar sem meðalhitastigið væri 1,6°C yfir meðaltalshita áranna 1961-1990 í júní til ágúst ætti sér staða á um það bil 52 ára fresti. Vísindamennirnir hafa nú uppfært niðurstöður sínar með tilliti til aukinnar hlýnunar síðan þá og betri tölvulíkana. Alþjóðaveðurfræðistofnunin skilgreinir hitabylgju sem tímabil fimm daga eða fleiri þar sem hitastig er fimm gráðum eða meira yfir hæsta meðalhita á hverjum stað.
Miðað við núverandi aðstæður gætu hitabylgjur af þessu tagi átt sér stað um það bil tvisvar á áratug. Hitastigið í Vestur-Evrópu var 0,8°C hærra frá 2003 til 2012 en 1990-1999. Það má að mestu leyti rekja til losunar manna á gróðurhúsalofttegundum.
Tölfræðin sem stuðst við var fyrir Frakkland, Þýskaland og Ítalíu. Það eru þau þrjú lönd sem urðu verst úti í gríðarlegri hitabylgju sem reið yfir álfuna árið 2003. Talið er að allt frá 30.000 til 70.000 manns hafi látist í 16 löndum af völdum hitans. Vatnsból og ár þornuðu upp, matvælaverð hækkaði vegna uppskerubrests og skepnudauða.
Sé miðað við bjartsýnustu spár manna um minnkandi losun gróðurhúsalofttegunda segja bresku veðurfræðingar að sumar eins og árið 2003 verði algengt á 5. áratug þessarar aldar, eftir innan við þrjátíu ár.
Miði menn hins vegar við núverandi losun gróðurhúsalofttegunda og hlýnun sem henni fylgir þá muni hitabylgja eins og gekk yfir 2003 verða talin gríðarlega kaldur viðburður fyrir lok aldarinnar. Mæla vísindamennirnir með því að stjórnvöld skipuleggi viðbúnað fyrir hitabylgjur í framtíðinni.