Læknar samþykktu aðra verkfallsboðun

Tæplega 98% samþykktu fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir sem gert er ráð fyrir …
Tæplega 98% samþykktu fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir sem gert er ráð fyrir að hefjist þann 5. janúar næstkomandi. Ómar Óskarsson

Lokið er atkvæðagreiðslu hjá Læknafélagi Íslands um verkfallsboðun lækna fyrstu þrjá mánuði ársins 2015. Tæplega 85% atkvæðisbærra lækna tóku þátt í kosningunni og var þátttakan betri en í síðustu atkvæðagreiðslu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Læknafélagi Íslands. 

Tæplega 98% samþykktu fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir sem gert er ráð fyrir að hefjist þann 5. janúar næstkomandi. Niðurstaða kosninganna er enn afdráttarlausari en niðurstaða kosninganna í september sl. um verkfallsaðgerðir sem staðið hafa með hléum í október, nóvember og nú í desember. Niðurstaðan hefur verið tilkynnt ríkissáttasemjara og formanni Samninganefndar ríkisins

Alls tóku 753 (84,51%) læknar þátt í atkvæðagreiðslunni og samþykktu 737 (97,88%) þeirra
tillögu stjórnar LÍ um fyrirkomulag verkfallsaðgerða sem ná til fyrstu þrjá mánuði ársins
2015. Nei sögðu 7 (0,93%) og 9 (1,2%) skiluðu auðu.

Náist ekki samningar fyrir 5. janúar nk. munu læknar sem starfa samkvæmt kjarasamningi
fjármálaráðherra og Læknafélags Íslands þá hefja nýjar lotur verkfallsaðgerða. Hver
verkfallslota mun ná yfir fjórar vikur. Starfseiningar, sem verkfall nær til hverju sinni, verða í verkfalli í fjóra daga í senn, frá mánudegi til fimmtudags.

Verkfallsloturnar verða sem hér segir:

1. Frá miðnætti aðfaranótt mánudagsins 5. janúar 2015 til miðnættis fimmtudaginn 8. janúar 2015 (4 sólarhringar), frá miðnætti aðfaranótt mánudagsins 2. febrúar 2015 til miðnættis fimmtudaginn 5. febrúar 2015 (4 sólarhringar) og frá miðnætti aðfaranótt mánudagsins 2. mars 2015 til miðnættis fimmtudaginn 5. mars 2015 (4 sólarhringar) á eftirtöldum heilbrigðisstofnunum/sjúkrahúsum eða sviðum sjúkrahúss og opinberum stofnunum þar sem læknar starfa:

a. Aðgerðarsvið Landspítala
b. Flæðisvið Landspítala
c. Sjúkratryggingar Íslands
d. Tryggingastofnun ríkisins
e. Greiningarstöð ríkisins f. Heyrnar- og talmeinastöð Íslands
g. Vinnueftirlit ríkisins
h. Lyfjastofnun Íslands
i. Embætti landlæknis
j. Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga

2. Frá miðnætti aðfaranótt mánudagsins 12. janúar 2015 til miðnættis fimmtudaginn 15.
janúar 2015 (4 sólarhringar), frá miðnætti aðfaranótt mánudagsins 9. febrúar 2015 til
miðnættis fimmtudaginn 12. febrúar 2015 (4 sólarhringar) og frá miðnætti aðfaranótt
mánudagsins 9. mars til miðnættis fimmtudaginn 12. mars 2015 (4 sólarhringar) á
eftirtöldum heilbrigðisstofnunum/sjúkrahúsum, eða sviðum sjúkrahúss og opinberum
stofnunum þar sem læknar starfa:
a. Sjúkrahúsið á Akureyri b. Lyflækningsvið Landspítala

3. Frá miðnætti aðfaranótt mánudagsins 19. janúar 2015 til miðnættis fimmtudaginn 22.
janúar 2015 (4 sólarhringar), frá miðnætti aðfaranótt mánudagsins 16. febrúar 2015 til
miðnættis fimmtudaginn 19. febrúar 2015 (4 sólarhringar) og frá miðnætti aðfaranótt
mánudagsins 16. mars til miðnættis fimmtudaginn 19. mars 2015 (4 sólarhringar) á eftirtöldum heilbrigðisstofnunum/sjúkrahúsum eða sviðum sjúkrahúss og opinberum stofnunum þar sem læknar starfa:

a. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins
b. Heilbrigðisstofnun Vesturlands
c. Heilbrigðisstofnun Vestfjarða
d. Heilbrigðisstofnun Norðurlands
e. Heilbrigðisstofnun Austurlands
f. Heilbrigðisstofnun Suðurlands
g. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja
h. Rannsóknarsvið Landspítala
i. Kvenna- og barnasvið Landspítala

4. Frá miðnætti aðfaranótt mánudagsins 26. janúar 2015 til miðnættis fimmtudaginn 29.
janúar 2015 (4 sólarhringar), frá miðnætti aðfaranótt mánudagsins 23. febrúar 2015 til
miðnættis fimmtudaginn 26. febrúar 2015 (4 sólarhringar) og frá miðnætti aðfaranótt
mánudagsins 23. mars til miðnættis fimmtudaginn 26. mars 2015 (4 sólarhringar) á
eftirtöldum heilbrigðisstofnunum/sjúkrahúsum eða sviðum sjúkrahúss og opinberum
stofnunum þar sem læknar starfa:

a. Geðsvið Landspítala b. Skurðlækningasvið Landspítala

mbl.is