„Þetta er alltaf slæmt en ég held að þetta sé sérstaklega slæmt á þessum tíma ársins,“ segir Gunnar Ingi Gunnarsson yfirlæknir í heilsugæslunni í Árbæ um verkfall lækna. „Það eru þannig tímar framundan, hátíðarnar og langar helgar, að ég hugsa að óleystur vandi safnist hratt upp.“
Enn ein verkfallslotan í verkfallsaðgerðum Læknafélags Íslands hófst á miðnætti í nótt. Í dag og á morgun leggja því læknar á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins, heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og þremur sviðum Landspítalans; aðgerðarsviði, rannsóknarsviði og kvenna- og barnasviði niður störf.
Í dag og á morgun mætir aðeins yfirlæknirinn til starfa á heilsugæslustofunum og sinnir hann aðeins bráðatilfellum. Þetta geta til dæmis verið tilvik þar sem sjúklingur kemur á stöðina með verk fyrir brjósti eða mikla kviðverki.
„Í fyrsta lagi falla niður móttökutímar lækna þessa tvo daga svo allar bókanir fara fyrir bí. Vegna manneklu er langur biðtími í nýja tíma,“ segir Gunnar Ingi. Hann segir erfitt að vita hvers eðlis erindin eru, en ef gengið er út frá því að um sé að ræða klassísk viðtöl þá séu það yfirleitt erindi sem fólk hefur þurft að bíða með. „Það er mjög bagalegt þegar við þurfum að fella þessa tíma út.“
Gunnar Ingi segir töluvert mikið hringt á stofuna, og vissulega finni starfsfólk fyrir óánægju. Hann segir það þó vekja athygli hvað fólk virðist sýna verkfallsaðgerðunum mikinn skilning. „Það kemur manni frekar mikið á óvart. Maður gekk út frá því að þetta myndi fyrst og fremst valda neikvæðum viðbrögðum en það virðist vera að fólk sýni þessu meiri skilning en áður þegar læknar hafa verið í átökum.“
Hann segir þetta mögulega stafa af því að fólk hafi áhyggjur af heilbrigðiskerfinu í heild. „Það kann að vera að fólk líti ekki á þetta sem afmarkaða hagsmunabaráttu lækna heldur líti svo á að heilbrigðiskerfið geti verið í hættu vegna læknaskorts sem á eftir að aukast ef þetta tefst,“ segir hann. „Eftir því sem þetta dregst meira á langinn, þeim mun meira tjón verður.“
Læknanemar sem útskrifast frá læknadeild Háskóla Íslands næsta vor hafa lýst því yfir að þeir ætli ekki að sækja um eða ráða sig í stöðu aðstoðarlæknis eða í aðrar sambærilegar stöður á Íslandi fyrr en ásættanlegur samningur hafi náðst. Gunnar segir þetta gríðarlega alvarlegt ástand. „Ef ungu læknarnir mæta ekki til vinnu eins og hefð er fyrir þá strandar þetta.“
„Þessi króníski sparnaður og þær hugmyndir að spítalinn sé alltaf að eyða um efni fram auk versnandi vinnumórals er orðinn að einum stórum vandamálapakka sem ég sé fyrir mér að muni taka áratugi að leysa úr.“