„Slæm staða og hún versnar“

Verkfallið er farið að bitna verulega á skjólstæðingum Barnaspítala Hringsins.
Verkfallið er farið að bitna verulega á skjólstæðingum Barnaspítala Hringsins. mbl.is/Hjörtur

„Verkfallið er farið að bitna verulega á skjólstæðingum okkar, einkum hvað varðar göngudeildarstarfsemi þar sem biðin til að komast að hjá lækni lengist stöðugt,“ segir Þórður Þórkelsson, yfirlæknir nýburalækninga á Barnaspítala Hringsins.

Barnaspítalinn heyrir undir kvenna- og barnasvið Landspítalans, en læknar þess leggja niður störf í dag og á morgun. Þá leggja læknar á aðgerðarsviði og rannsóknarsviði jafnframt niður störf þessa daga.

Biðlistar óviðunandi langir

Þórður segir Barnaspítalann rekinn með lágmarksmönnun þessa tvo daga sem verkfallsaðgerðirnar standa yfir. Þá starfi tveir sérfræðingar í dagvinnu og þrír deildarlæknar í dagvinnu. Á venjulegum degi eru sérfræðingar Barnaspítalans á milli tíu og tuttugu. 

„Mönnunin er í lágmarki svo við sinnum bara því sem nauðsynlegt er. En biðlistarnir fyrir innlögn á spítalann, til dæmis fyrir rannsóknir sem gera þarf fyrir svæfingu eða segulómskoðun, eru orðnir óviðunandi langir.“

Þungt hljóð í mörgum

Þórður segir ástandið versna með hverjum verkfallsdeginum sem bætist við. Öllum bráðatilfellum sé þó sinnt og þau tekin fram yfir önnur sem ekki eru jafnbráð. Stöðugt þurfi því að endurraða á biðlista. „Þetta er slæm staða og hún versnar.“

Hann segir skipulagninguna þó mjög góða og þess sé gætt af fremsta megni að koma í veg fyrir að eitthvað alvarlegt komi upp. Þá segir hann fólk finna fyrir verkfallsaðgerðunum, en það sé þó mjög þolinmótt. „En maður finnur að það er þungt hljóð í mörgum.“

Þórður segir stærstu áhyggjurnar núna vera af því að læknar segi upp, enda séu margir farnir að hugsa sér til hreyfings. „Það eru margir farnir að horfa til þess að flytja úr landi. Það er það sem er verst í þessu, og þá sérstaklega hvað varðar unga fólkið.“

Mönnun er í lágmarki þá daga sem verkfall stendur yfir, …
Mönnun er í lágmarki þá daga sem verkfall stendur yfir, svo aðeins bráðatilfellum er sinnt. Kristinn Ingvarsson
mbl.is