Spyr hvort ríkið sé í afneitun

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég velti því fyrir mér hvort það sé einhver afneitun í gangi hjá forystumönnum ríkisstjórnarinnar,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, sem gerði læknadeiluna að umtalsefni á Alþingi í dag. Hann furðaði sig á viðbrögðum stjórnvalda og því hversu lítið þingmenn hefðu rætt um stöðuna.

Hann benti á að ný hrina verkfallsaðgerða væri að hefjast, vandræðin þar af leiðandi að aukast og tjónið þar með.  

„Áhyggjur þeirra sem gerst þekkja til vaxa dag frá degi. Það er alveg ljóst að nú verður frestað rannsóknum og aðgerðum og ýmiskonar meðhöndlun í svo stórum stíl að biðlistar munu verða óviðráðanlega langir. Og kerfið er svo lestað fyrir, að jafnvel þó að semdist á morgun eru möguleikarnir til að vinna þetta upp afar takmarkaðir, í undirmönnuðu kerfi sem er undir miklu álagi.“

Steingrímur sagði ennfremur að læknar væru í auknum mæli að gefast upp og segja upp störfum. „Flestir eru þeirrar skoðunar að það megi búast við hrinu slíkra uppsagna um áramótin ef ekki hafi samist fyrir þann tíma.“

Steingrímur sagðist undrast viðbrögð forsætisráðherra og fjármálaráðherra, þ.e. hvernig þeir hefðu talað í þessum efnum. Þeir hefðu „reynt að henda botanum í allar aðrar áttir en til sín sjálfra“.

Hann sagði jafnframt að fastráðnair læknar á sjúkrahúsum og heilsugæslum landsins væru burðarásar vinnunnar í opinbera heilbrigðiskerfinu. „Þetta eru hópar sem hafa setið eftir,“ sagði hann og bætti við að röðin væri komin að þeim.

„Íslenska ríkið verður sem launagreiðandi að vera samkeppnisfært og geta boðið þannig kjör að þessi verðmæti starfshópur fáist til starfa á Íslandi,“ sagði Steingrímur.

mbl.is

Bloggað um fréttina