Skurðlæknar samþykktu frekari aðgerðir

Verkfallsaðgerðir skurðlækna hefjast aftur 12. janúar.
Verkfallsaðgerðir skurðlækna hefjast aftur 12. janúar. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Lokið er atkvæðagreiðslu hjá Skurðlæknafélagi Íslands um verkfallsboðun skurðlækna fyrstu þrjá mánuði ársins 2015. Á kjörskrá voru 91 félagsmaður. Atkvæði greiddu 91,21% eða 83 félagsmenn. Allir (100%) samþykktu fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir sem gert er ráð fyrir að hefjist þann 12. janúar næstkomandi. Niðurstaða kosninganna er því enn afdráttarlausari en niðurstaða kosninga félagsmanna SKÍ í september sl. um verkfallsaðgerðir sem staðið hafa með hléum í október, nóvember og nú í desember. Niðurstaðan hefur verið tilkynnt ríkissáttasemjara og formanni Samninganefndar ríkisins

Náist ekki samningar fyrir 12. janúar nk. munu skurðlæknar sem starfa samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og Skurðlæknafélags Íslands þá hefja nýjar lotur verkfallsaðgerða. Hver verkfallslota mun ná yfir fjóra samfellda dag í mánuði, frá frá mánudegi til fimmtudags. Verkfallsloturnar verða sem hér segir:

Á öllum heilbrigðisstofnunum öðrum en Sjúkrahúsinu á Akureyri:

  1. Frá miðnætti aðfararnótt mánudagsins 12. janúar 2015 til miðnættis fimmtudaginn 15. janúar 2015 (4 sólarhringar).
  2. Frá miðnætti aðfararnótt mánudagsins 9. febrúar 2015 til miðnættis fimmtudaginn 12. febrúar 2015 (4 sólarhringar).
  3. Frá miðnætti aðfararnótt mánudagsins 9. mars til miðnættis fimmtudaginn 12. mars 2015 (4 sólarhringar).

Á Sjúkrahúsinu á Akureyri:

  1. Frá miðnætti aðfararnótt mánudagsins 19. janúar 2015 til miðnættis fimmtudaginn 22. janúar 2015 (4 sólarhringar).
  2. Frá miðnætti aðfararnótt mánudagsins 16. febrúar 2015 til miðnættis fimmtudaginn 19. febrúar 2015 (4 sólarhringar).
  3. Frá miðnætti aðfararnótt mánudagsins 16. mars til miðnættis fimmtudaginn 19. mars 2015 (4 sólarhringar).
mbl.is