Tíu aðgerðum frestað á Akureyri

Um 12-14 læknar eru til taks á sjúkrahúsinu í dag.
Um 12-14 læknar eru til taks á sjúkrahúsinu í dag. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Í dag og á morgun eru læknar á Sjúkrahúsinu á Akureyri í verkfalli. Að sögn Sigurðar E. Sigurðssonar, framkvæmdarstjóra lækninga á sjúkrahúsinu, stuðla aðgerðirnar að lengri biðlistum. 

„Með þessu lengjast bara biðlistarnir og það verður alltaf erfiðara að vinna ofan að þessu. Nú fer að koma jólatíð og þá dregur hvort sem er úr sjúklingum en ef aðgerðirnar halda áfram eftir áramót verður heilbrigðiskerfið óstarfhæft að stórum hluta,“ segir Sigurður í samtali við mbl.is.

„Í raun og veru eru allir læknar á sjúkrahúsinu í verkfalli. En við erum með tólf til fjórtán manns til taks til þess að sinna bráðaþjónustu. Við gerum ráð fyrir því að ástandið verði svipað á morgun.“

Sigurður segir að yfirleitt dragi úr starfsemi sjúkrahússins yfir hátíðarnar og er árið í ár engin undantekning. „Mér sýnist að það séu tíu aðgerðir sem duttu út í dag og fimm speglanir. En svo dettur út auðvitað líka öll þjónusta á göngudeildum og endurkoma og þessháttar.“

Hann segir að mikið hafi verið að gera á slysadeild sjúkrahússins í fyrradag þegar að verkfall var á heilsugæslunni. Þó hafi allt gengið vel og starfsfólk stofnunarinnar náð að sinna bráðaþjónustu án þess að skaði hlaust af. 

„Ég held að okkur hafi tekist það hingað til að sinna þeirri bráðaþjónustu sem við þurftum að gera. En þetta verður alltaf erfiðara,“ segir Sigurður.

mbl.is