Liggur á setustofu hjartadeildarinnar

Guðni Páll Viktorsson reri í kringum landið á síðasta ári.
Guðni Páll Viktorsson reri í kringum landið á síðasta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kajakræðarinn Guðni Páll Viktorsson hefur dvalið á hjartadeild Landspítalans síðustu daga. Hann hefur ekki fengið herbergi á hefðbundinni stofu, líkt og aðrir sjúklingar deildarinnar, heldur er rúm hans í setustofu sem ætluð er fyrir sjúklinga og gesti. 

Greint var frá dvöl Guðna Páls á Landspítalanum í Fréttablaðinu í morgun. 

Guðni Páll vann mikið afrek á síðasta ári þegar hann reri í kringum landið á kajak en ferðin tók samtals um þrjá mánuði.

Maður er bara með eina pumpu

Þegar mbl.is náði tali af Guðna Páli í hádegi sagðist hann loks hafa komist í myndatöku í morgun og bíður hann eftir niðurstöðum. Mikið er að gera á deildinni, margir liggja inni og þá gengur margt hægar vegna verkfallsaðgerða lækna á sjúkrahúsinu.

„Ég held að þetta sé besti staðurinn í húsinu,“ segir Guðni Páll, aðspurður hvort hann verði áfram í setustofunni. Hann fékk aðsvif á mánudagskvöld og ákvað að leita sér læknishjálpar. „Maður er bara með eina pumpu.“

Ánægður með starfsfólk deildarinnar

Ekki virðist fara illa um Guðna Pál í setustofunni. „Það fer ágætlega um mig. Það er ekkert gaman að hanga og bíða en það leggjast allir á eitt hér að gera þetta sem best fyrir mann. Starfsfólkið hérna er alveg frábært. Það er alveg hægt að vera á verri stöðum en þetta,“ segir hann.

Guðni Páll segist vera farinn að huga að næsta verkefni en vill ekki gefa upp í hverju það felst. „Þetta setur pínu strik í reikninginn, maður veit ekki hvað kemur út úr þessu,“ segir hann.

mbl.is