„Það voru margir sem vissu ekki af verkfallinu. Í þessum seinni lotum höfum við orðið vör við meiri pirring hjá fólki,“ segir Oddur Steinarsson framkvæmdastjóri lækningasviðs á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Heilsugæslulæknar voru í verkfalli á mánudaginn og þriðjudaginn. Bráðatilfellum var þó sinnt eins og undanfarið, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Oddur áætlar að yfir 2.000 læknaviðtöl hafi fallið niður báða dagana. Þá hafi langar biðraðir myndast á læknamóttökum. „Þetta er ekki gott, vægast sagt. Ég vona innilega að til hennar [næstu verkfallslotu lækna] komi ekki. Ég held að það sé mjög varhugavert að fara með þessa deilu yfir áramótin,“ segir hann í blaðinu.