Saklaus en samt tekinn af lífi

Aftaka - þessi mynd er úr safni
Aftaka - þessi mynd er úr safni AFP

Átján ára kínverskur piltur, sem var tekinn af lífi fyrir átján árum eftir að hafa verið dæmdur til dauða fyrir nauðgun og morð, var saklaus. Það er niðurstaða dómstóls í dag en afar sjaldgæft er að kínverskir dómstólar viðurkenni slík mistök.

Pilturinn, sem hét Hugjiltu en hefur einnig gengið undir heitinu Qoysiletu í fjölmiðlum, var árið 1996 dæmdur til dauða í Innri-Mongólíu, sem er hérað í norðurhluta Kína og á landamæri að Rússlandi og Mongólíu. Árið 2005 játaði hins vegar annar maður á sig glæpinn er Hugjiltu var hins vegar ekki sýknaður fyrr en í dag. Var það gert á grundvelli ónógra sannana um að hann hefði átt hlut að máli. „Hugjiltu er saklaus,“ segir í niðurstöðu dómstólsins í dag.

Samkvæmt frétt Xinhua-ríkisfréttastofunnar fá foreldrar Hugjiltus 30 þúsund júana, 602 þúsund krónur, í bætur fyrir fráfall sonarins. Segir í fréttinni að ekki sé um opinberar skaðabætur að ræða heldur sé um persónulegt framlag að ræða.

Lögreglan í borginni, þar sem glæpurinn var framinn, hefur nú hafið rannsókn á hlut lögreglumanna sem unnu að rannsókninni á sínum tíma. 

Samkvæmt niðurstöðu dómsins er ekki samræmi í játningu Hugjiltus á sínum tíma og réttarmeinarannsókninni. Eins sé ekki samræmi í játningunni og öðrum gögnum í málinu. Má þar nefna lífsýni þar sem þau lífsýni sem fundust séu ekki úr honum.

Hugjiltu var yfirheyrður í tvo sólarhringa látlaust og játaði hann að hafa nauðgað og kyrkt konu inni á klósetti í textílverksmiðju. Hann var tekinn af lífi 61 degi eftir morðið.

Fjölskylda hans reyndi í tæpan áratug að sanna sakleysi hans án árangurs. Það var síðan í nóvember sl. sem málið var tekið upp að nýju fyrir héraðsdómstól Innri-Mongólíu.

Málið hefur vakið athygli á samfélagsmiðlum og benda ýmsir á að 30 þúsund júanar séu lítil sárabót fyrir mannslíf. Aðrir krefjast þess að lögregla verði sótt til saka fyrir handvömm við rannsókn málsins.

Nokkrir slíkir dómar hafa ratað í fjölmiðla undanfarin ár. Má þar nefna mann sem sat í sautján ár í fangelsi fyrir að hafa myrt eiginkonu sína en hann var sýknaður á síðasta ári.

Nokkrum mánuðum fyrr voru tveir menn, sem höfðu verið dæmdir fyrir nauðgun á sautján ára gamalli stúlku árið 2004, sýknaðir en annar þeirra hafði verið dæmdur til dauða á sínum tíma en hinn í lífstíðarfangelsi.

mbl.is