Nauðganir mesta skömm Indlands

Tvö ár eru liðin frá því í dag er 23 ára gamalli indverskri konu var nauðgað og misþyrmt svo hrottalega í strætisvagni í Nýju-Delí að hún lést af sárum sínum. Ekkert hefur breyst á þessum tveimur árum segir faðir hennar og segja indverskir fjölmiðlar að nauðganir séu mesta skömm landsins.

Ofbeldið sem unga konan og félagi hennar urðu fyrir af hálfu hóps manna vakti heimsathygli og mikla reiði en kynbundið ofbeldi er á fáum stöðum jafn algengt og á Indlandi.Í kjölfarið var gerð breyting á hegningarlögum landsins og refsing við nauðgunum og öðru kynferðisofbeldi hertar.

The Times og India ræddi við föður ungu konunnar í dag en hann er ósáttur við þróunina. „Það hefur ekkert breyst á Indlandi... Öll loforðin og yfirlýsingarnar sem leiðtogar vorir og ráherrar hafa gefið eru innantóm,“hefur blaðið eftir honum.

Fyrr í mánuðinum var greint frá því að leigubílstjóri Uber hafi ráðist á 26 ára gamla konu í höfuðborginni og nauðgað henni. Fréttir af nauðgunum eru afar tíðar frá Indlandi og oft er um fátækar ungar stúlkur að ræða á strábýlli stöðum.

Móðir ungu konunnar sem var nauðgað 16. desember 2012 segir að nánast daglega berist fréttir af nauðgunum eða öðru kynbundnu ofbeldi gagnvart konum og stúlkum á Indlandi.

Könnun sem birt var í dag leiðir í ljós að 91% indverskra kvenna telur að ekkert hafi breyst og staða þeirra sé síst betri en áður þrátt fyrir fögur fyrirheit um annað. Alls tóku 2.557 konur þátt í rannsókninni sem birt var í Hindustan Times. Þar kemur fram að 97% þátttakenda hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni einhvern tíma á lífsleiðinni.

Í Nýju-Delí var ungu konunnar minnst í dag með kertaljósum. En hún lést 13 dögum eftir árásina. Henni tókst hins vegar að lýsa árásarmönnunum fyrir lögreglu og hafa fjórir af þeim sex verið dæmdir til dauða fyrir hlut sinn í árásinni. Meðal annars beittu þeir járnstöngum við ofbeldið gagnvart henni og þegar þeir höfðu níðst nægju sína á henni þá hentu þeir henni út úr strætisvagninum á ferð. Einn þeirra var dæmdur fyrir unglingadómstól og einn framdi sjálfsvíg í fangelsi eftir árásina. 

mbl.is