Vandinn ekki leystur með skattfé

Mótmælt er harðlega ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að auka fjárveitingar til Ríkisútvarpsins á næsta ári samkvæmt fjárlögum í ályktun frá stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna. Fram kemur í ályktuninni að með aukafjárveitingunni hækki framlög til Ríkisútvarpsins um rúmlega 300 milljónir króna frá yfirstandandi ári. Þannig hafi framlög ríkisins til félagsins verið 3,19 milljarðar árið 2013 og 3,38 milljarðar á þessu ári. Á tveimur árum hafi framlögin hækkað um 485 milljónum króna sem sé duglega umfram hækkun verðlags.

„Fjárhagsvandi Ríkisútvarpsins verður ekki leystur með meira skattfé, heldur þurfa stjórnendur RÚV að sníða stofnuninni stakk eftir vexti og draga verulega úr rekstrarkostnaði hennar m.a. með því að selja útvarpshúsið við Efstaleiti sem er óþarflega stórt og dýrt í rekstri. Í heild hefur ríkisfjölmiðillinn haft rúmar 30 þúsund milljónir í heildartekjur en af einhverri ástæðu hefur reksturinn skilað milljarða tapi síðustu 10 ár, þrátt fyrir þessa miklu forgjöf. Ungir sjálfstæðismenn ítreka jafnframt þá skoðun að ríkisvaldið eigi ekki að standa í fjölmiðlarekstri eins og öðrum þeim rekstri sem er betur kominn í höndum einkaaðila.“

Þá minna ungir sjálfstæðismenn ráðherra og þingmenn Sjálfstæðisflokksins á samþykkt síðasta landsfundar flokksins þar sem meðal annars segi: „Rekstur ríkisins á fjölmiðlum má ekki hamla frjálsri samkeppni og raska rekstrargrundvelli annarra fjölmiðla. Landsfundur leggur til að þörf samfélagsins fyrir ríkisfjölmiðil verði endurskilgreind og Ríkisútvarpið ohf. verði lagt niður í núverandi mynd ef ástæða þykir til. Skilgreina þarf hvaða menningarfræðslu og dagskrárgerð á að styrkja opinberlega og tryggja fjármagn til þeirra verkefna.“

mbl.is