Fundað var í kjaradeilu lækna í fimm klukkustundir í húsi ríkissáttasemjara í dag, en honum var slitið um þrjúleytið. Þetta staðfestir Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands, sem vildi að öðru leyti ekki tjá sig um stöðu viðræðnanna eða umræðuefni fundarins. Fundað verður aftur á morgun klukkan 11.
Í samtali við mbl.is í gær sagði Þorbjörn að samninganefnd lækna hafi lagt fram nýjan flöt á eldri hugmynd á fundi á þriðjudaginn.
Verkfallsaðgerðir lækna hófust 27. október og haldnir hafa verið rúmlega þrjátíu fundir í kjaradeilunni.
Atkvæðagreiðslu LÍ um verkfallsboðun lækna fyrstu þrjá mánuði ársins 2015 lauk fyrr í mánuðinum en um 98% þeirra sem kusu samþykktu fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir. Gert er ráð fyrir að þær hefjist þann 5. janúar næstkomandi ef samningar hafa ekki náðst fyrir þann tíma.