Fundurinn í dag „úrslitastund“

Frá sáttafundinum í gær.
Frá sáttafundinum í gær. mbl.is/Þórður

Fundur samninganefnda Læknafélags Íslands og ríkisins stendur nú yfir, en hann hófst klukkan 10:30. Sigurveig Pétursdóttir, formaður samninganefndar LÍ, sagðist í samtali við Morgunblaðið í dag reikna með því að fundurinn verði úrslitastund í læknadeilunni.

Síðasti fundur í deilunni fór fram í gær og stóð í um sex klukkustundir, án þess að niðurstaða fengist í kjaradeilur lækna.

Verkfallsaðgerðir lækna munu hefjast á ný mánudaginn 5. janúar, náist samningar ekki. Þær aðgerðir munu hafa mikla röskun í för með sér á starfsemi Landspítalans, enda munu einstakir hópar lækna þá leggja niður störf í fjóra daga í röð, en ekki í tvo daga í röð eins og fram að þessu.

Verkfallið kemur til með að hafa mikil áhrif á þjónustu við sjúklinga og til að mynda verður bara skorið upp á Landspítalanum einn dag í viku. Biðlistar munu því lengjast mikið og starfsemi skerðast mikið.

Sigurveig sagði í samtali við Morgunblaðið að ljóst væri að verulega launahækkun þurfi til að halda læknum á landinu. „Við erum að berjast við það að reyna að gera samning sem gerir það að verkum að fólk hættir að segja upp og vill koma til Íslands að vinna. Það ber svolítið í milli ennþá.“

Verkfallsaðgerðir lækna, sem hófust þann 27. október sl., hafa þegar haft í för með sér að hundruð aðgerða á Landspítalanum hafa fallið niður og biðlistar lengst fyrir vikið. 

Læknar við störf.
Læknar við störf. mbl.is/Ásdís
mbl.is