Mótmælin „mjög óviðeigandi“

Aðstðaryfirlögreglustjórinn Benjamin Tucker, Bill de Blasio borgarstjóri og Bill Bratton …
Aðstðaryfirlögreglustjórinn Benjamin Tucker, Bill de Blasio borgarstjóri og Bill Bratton lögreglustjóri New York mæta í jarðarför lögreglumannsins Wenjian Liu, sem var skotinn til bana í New York þann 20. desember. AFP

Bill Bratton, lögreglustjóri New York borgar hvatti lögreglumenn til að sýna stillingu og mótmæla ekki þegar hinn umdeildi Bill de Blasio, borgarstjóri New York, mætti við jarðaför lögreglumannsins Wenjian Liu, sem var skotinn til bana 20. desember á síðasta ári.

Borgarstjórinn hefur sætt mikilli gagnrýni frá lögreglumönnum í New York eftir að Liu, og félagi hans Rafael Ramos, voru skotnir. Mörg hundruð lögreglumenn snéru með á táknrænan hátt bakinu að de Blasio þegar Ramos var borinn til grafar í síðustu viku, sem hvatti Bratton til að beina þessari hvatningu til sinna manna.

Liu og Ramos voru skotnir til bana af manni, sem sagðist vera að hefna fyrir hversu margir óvopnaðir, svartir karlmenn hefðu verið skotnir af lögreglumönnum í Bandaríkjunum undanfarin misseri. Mörg þúsund manns voru við útför Liu.

„Mjög óviðgeigandi“

Bratton hefur áður sagt að mótmæli lögreglumannanna við útför Ramos hafi verið „mjög óviðeigandi“. 

„Útför hetju á að vera stund til að syrgja, ekki til mótmæla,“ skrifaði Bratton í minnisblað sem var birt öllum 34.000 lögreglumönnum borgarinnar. „Ég gef engar skipanir og boða engar refsingar gegn þeim sem ekki hegða sér sem skyldi við útförina, en minni ykkur á að þegar þið klæðist þessum búningi, þá eruð þið bundin af þeimm hefðum, virðingu og siðgæði sem honum fylgir.“

Hann sagði að mótmælin við útför Ramos hafi „rænt minningu Ramos því hugrekki, heiðri og athygli sem hún ætti skilið.“

„Tilgangurinn var ekki sá,“ bætti Bratton við, „En sú varð niðurstaðan.“ Yfir 20.000 lögreglumenn frá öllum ríkjum Bandaríkjanna voru við útför Ramos á sunnudaginn.

mbl.is