Viðræðurnar þokast í rétta átt

Útlit er fyrir að verkfallið hefjist á miðnætti.
Útlit er fyrir að verkfallið hefjist á miðnætti. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Áfram er fundað stíft í kjaradeilu ríkisins og Læknafélags Íslands. Sigurveig Pétursdóttir formaður samninganefndar Læknafélagsins segir að viðræðurnar hafi þokast í rétta átt.

Aðspurð hvort efni væri til bjartsýni um að ná samningum fyrir miðnætti segir hún: „Í raun er of snemmt að segja til um það. Það eru nokkrir klukkutímar til stefnu. Það er þó ekki mjög líklegt að við náum að semja fyrir miðnætti en þó er vissulega alltaf einhver möguleiki fyrir hendi. Þetta hefur þokast aðeins í áttina.“

Sigurveig segir ómögulegt að segja um hversu líklegt sé að verkfallið verði að veruleika. Hún segir að læknar hafi gefið mikið eftir af kröfum sínum það sem af er samningaviðræðunum en segist enn fremur búast við því að læknar yrðu sáttir við niðurstöðuna ef kröfur þeirra, eins og þær standa núna, yrðu samþykktar. „Það kemur bara í ljós með atkvæðagreiðslu í félaginu.“

„Hann verður þá bara að standa við þau orð sjálfur“

Þeim möguleika hefur verið velt upp að ríkið dragi tilboð sitt til baka, ef svo færi að samkomulag myndi ekki nást fyrir miðnætti. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur m.a. viðrað þann kost í viðtölum. Aðspurð hvort hún telji líklegt að svo verði segir Sigurveig: „Mér fyndist það mjög óeðlilegt á þessu stigi málsins. Hann verður þá bara að standa við þau orð sjálfur. Ég hef ekkert um hans orð að segja.“

Gunnar Björnsson formaður samninganefndar ríkisins segir að viðræðurnar gangi ágætlega.

„Viðræðunum miðar þokkalega en þó er lítill munur á árangri dagsins og þeim sem hefur verið síðustu vikur. Það er alltaf von þrátt fyrir að svo fari að þetta fyrsta verkfall verði veruleiki. Ef við náum ekki samkomulagi í kvöld þá verður fundað á morgun og alveg út vikuna ef þörf krefur.“

mbl.is