Ásteytingarsteinarnir eru nokkrir

Formenn samninganefndanna gáfu sér tíma kl. 17 í dag til …
Formenn samninganefndanna gáfu sér tíma kl. 17 í dag til að ræða við fjölmiðla. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta hefur gengið upp og ofan getur maður sagt. Það eru ákveðin atriði sem hafa skýrst og önnur á móti orðið flóknari,“ segir Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, um gang viðræðna í kjaradeilu lækna og ríkisins.

Fundarhöld í deilunni hófust kl. 14 í dag og standa enn. Ásteytingarsteinarnir eru nokkrir, að sögn Gunnars, en skýrst hefur á hvaða forsendum sá ágreiningur sem er uppi er byggður.

„Í samningaviðræðum eru menn alltaf að skiptast á tillögum og reyna að meta - ef ég breyti mínum forsendum svona, hvernig bregst gagnaðilinn við - og þannig hefur það gengið. Þannig að þetta hefur verið að taka breytingum og eftir því sem þetta þrengist þá skiptir meira máli varðandi hvert og eitt atriði hverjar forsendurnar eru á bak við það. Það er það sem við erum að fást við þessa stundina,“ segir Gunnar.

Gunnar segir mörg atriðið þegar hafa verið afgreidd en tveir stærstu póstarnir séu eftir; launaþátturinn og vinnufyrirkomulagið.

Sigurveig Pétursdóttir, formaður samninanefndar lækna, tekur í sama streng og Gunnar og segir þó nokkuð standa útaf en unnið sé hörðum höndum að því að ná saman. Hún segir að eftir því sem fleiri mál hafi verið afgreidd hafi kristallast betur hvað standi eftir. „Það er búið að vinna mikla vinnu en það eru mikilvæg mál eftir,“ segir hún.

En sér hún ljós við enda ganganna?

„Ég held það en hvað það er langt í það veit ég ekki. Stundum veit maður ekki hvar ljósið er eða hvort það eru einhverjar erfiðar beygjur á leiðinni,“ segir Sigurveig.

Sigurveig hefur áður sagt að læknar hafi slegið af kröfum sínum í viðræðunum.

„Samningaviðræður eru auðvitað alltaf þannig að það er enginn sem fær allt sitt í gegn. Það er fáheyrt. Og þess vegna ganga samningaviðræður alltaf út á það að maður kemur sjálfur með kröfur sem manni sjálfum finnst raunhæfar eða réttlætanlegar og svo verður maður að jafna þetta einhvern veginn. Sumu getur maður slegið af en öðru ekki,“ segir hún.

Spurður að því hvort samninganefnd ríkisins hafi bætt eitthvað í til að koma til móts við lækna segir Gunnar: „Þetta hefur gengið á báða bóga. Þau hafa bæði slegið af og bætt í og við höfum líka slegið af og bætt í. Þannig að það er ekki alveg hægt að segja að þetta sé klippt og skorið.“

mbl.is