Biðin á slysa- og bráðadeild Landspítalans í Fossvogi er ívið lengri en vanalega í dag, en verkfall lækna hófst á miðnætti. Læknar á flæðissviði spítalans, sem bráðamóttakan heyrir undir, eru meðal þeirra sem leggja niður störf fram á fimmtudag og er því aðeins lágmarksmönnun á deildinni.
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri flæðissviðs segir stöðuna vera metna á hálftíma fresti, og starfsemin gangi þokkalega fyrir sig. „Við höfum ekki þurft að fá undanþágu til að kalla út meiri mannskap í dag, og ef eitthvað er þá er aðsóknin aðeins minni í dag en venjulega svo það hjálpar til,“ segir hún.
Auk bráðamóttöku heyrir öldrun og endurhæfing undir flæðissvið, og leggja læknar þar því einnig niður störf í dag. Rakel segir allt ganga samkvæmt áætlun á báðum deildum.
Rakel segir starfsfólk spítalans mjög uggandi yfir stöðunni, og lítið megi útaf bregða. „Spítalinn er þungur og flæðið hefur verið frekar hægt,“ segir hún. „Við vonumst svo sannarlega til þess að þetta fari að leysast og menn leggi sig alla fram við það því þessir fjórir dagar geta orðið okkur mjög erfiðir.“
Þá segir hún það ekki hjálpa til að upp komi sýkingar á spítalanum, en eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag var krabbameinsdeildinni lokað um helgina vegna nóró-sýkingar.