Áreitið hófst í Háskóla Íslands

mbl.is/Kristinn

Hæstiréttur staðfesti í dag ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að karlmaður skuli sæta nálgunarbanni í hálft ár. Má hann ekki koma á eða í námunda við heimili eða vinnustað konu, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis staðina. Þá má maðurinn heldur ekki veita henni eftirför, nálgast hana á almannafæri eða setja sig í samband við hana með öðrum hætti.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að áreiti mannsins hafi byrjað árið 2011 og staðið með hléum síðan þá. Í skýrslu sem tekin var af konunni kemur fram að leiðir konunnar og mannsins hafi legið saman árið 2011 þegar þau sóttu saman námskeið í Háskóla Íslands. Segir hún að maðurinn hafi áreitt hana í skólanum og hafi áreitið gengið svo langt að hún óskaði eftir því við skólayfirvöld að þau sæju um að hún þyrfti ekki að sitja sömu tíma og hann.

Maðurinn sendi konunni og móður hennar einnig gjöf, bolta og pumpu sem eftir innpökkun líktist kynfærum karla. Þá króaði hann hana af í skólanum og varnaði útgöngu. Hélt áreitið ítrekað áfram. Þá sagðist konan einnig hafa orðið fyrir miklu ónæði í október árið 2014 við heimili sitt og heimili kærasta síns þar sem hringt hafi verið ítrekað á bjöllu um miðnætti og í byrjun nóvember hafi verið reynt að brjótast inn í íbúð kærasta hennar með því að klifra upp á svalir íbúðarinnar en nágranni hafi stoppað manninn af.

Í skýrslu sem tekin var af manninum viðurkenndi hann að hafa sent konunni fjölda skilaboða á Facebook þrátt fyrir að hún hafi ekki svarað honum.

mbl.is