Lögregla í Bihar-héraði á Indlandi hefur handtekið einn þeirra fimm sem eru grunaðir um að hafa nauðgað sextán ára gamalli stúlku á skrifstofu héraðsstjórnarinnar á sunnudag.
Ráðist var á stúlkuna seint á sunnudag á skrifstofunni. Meðal þeirra sem tóku þátt í árásinni var starfsmaður héraðsstjórnarinnar en mennirnir buðu henni far heim til ættingja sinna er hún mætti þeim skammt frá skrifstofunni. En þess í stað þvinguðu þeir hana með sér inn á skrifstofuna í Muzaffarpur sýslu og nauðguðu henni. Stúlkunni tókst síðar að sleppa og fór hún til lögreglu og kærði ofbeldið.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hefur einn þeirra verið handtekinn og er hinna fjögurra leitað.
Um er að ræða enn eitt málið tengt ofbeldi gagnvart konum og stúlkum á Indlandi. Fyrr í dag voru tveir lögreglumenn í Uttar Pradesh-héraði handteknir en þeir eru kærðir fyrir að hafa nauðgað unglingsstúlku á gamlársdag í Badaun-sýslu. Stúlkan, sem er 14 ára, hafði farið út til þess að létta á sér þegar mennirnir réðust á hana.
Badaun komst í fréttirnar í maí í fyrra þegar lík tveggja stúlkna fundust hangandi í tré. Talið var að þeim hefði verið nauðgað af hópi manna og þær síðan myrtar en nú er talið að svo hafi ekki verið heldur hafi þær framið sjálfsvíg.