Alls hefur 586 aðgerðum á Landspítalanum verið frestað vegna verkfallsaðgerða lækna og skurðlækna síðan 27. október. Jafnframt er áætlað að 786 aðgerðir hafi fallið niður vegna verkfallsins. Þetta kemur fram í upplýsingum frá Landspítala.
Skrifað var undir nýjan kjarasamning lækna í nótt en enn standa yfir viðræður í kjaradeilu skurðlæna.
Auk niðurfelldra og frestaðra aðgerða voru 108 niðurfellingar á inngripum á hjartaþræðingastofu. Þar af voru 67 hjartaþræðingar, átján gangráðsaðgerðir, fimmtán brennsluaðgerðir, sex Amplatzer-aðgerðir og tvær víkkanir.
Alls hafa orðið 3.117 niðurfellingar á komum á göngudeildir síðan verkfallsaðgerðir lækna hófust.
Flestar voru á skurðlækninga- og lyflækningasviði, eða rúmlega þúsund, en jafnframt voru 480 á kvenna- og barnasviði, 358 á flæðisviði, 197 á geðsviði og 65 á aðgerðasviði.