„Ég auðvitað fagna því eins og allir landsmenn að deilan hafi leyst,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður þingflokks Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, aðspurð um viðbrögð hennar við því að læknadeilan sé nú leyst.
Hún segir að deilan hafi sýnt Íslendingum í hversu viðkvæmri stöðu heilbrigðisþjónustan er. „Maður skynjaði verulegar áhyggjur hjá almenningi í landinu vegna deilunnar og þeim möguleika að hún gæti valdið óafturkræfum skaða. Ég held að þetta hafi sýnt okkur viðkvæma stöðu heilbrigðisþjónustunnar.“
Katrín segir deiluna jafnframt mjög sterka áminningu um hversu mikilvægt það sé að búa vel að kerfinu og þá einnig að opinberum hluta þess. „Í því samhengi nefni ég Landspítalann sem hefur þurft að glíma við niðurskurð frá aldamótum á meðan kannski aðrir þættir heilbrigðisþjónustunnar hafa sloppið betur í stóra samhenginu. Landspítalinn er búinn að taka mikið á sig en hann er hjartað í opinberri heilbrigðisþjónustu,“ segir Katrín. „Áhyggjur almennings sýna líka vilja fólks til þess að varðveita og verja spítalann.“
Katrín segir að nú þurfi yfirvöld heilbrigðismála að skoða afleiðingar deilunnar. „Viðræðurnar tóku mjög langan tíma og verkfallsaðgerðir lækna hafa nú þegar haft mikil áhrif á kerfið. Nú þarf að skoða afleiðingarnar, greiða úr biðlistum og öðru sem safnast hefur upp meðan á aðgerðunum stóð.“