„Ég er ánægður með að lending hafi náðst, vissulega. Ég hef ekki séð samninginn en mér hafa verið kynnt ákveðin atriði hans og það er ljóst að það eru verkefni fyrir höndum, því það eru ákveðnir þættir í samningnum sem eru lagðir í hendur stofnana. Og við förum í það á árinu.“
Þetta segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, um nýgerðan kjarasamning lækna. Ákveðin atriði samningsins er varða Landspítalann voru kynnt framkvæmdastjórn spítalans í hádeginu, en Páll segir að gert sé ráð fyrir að stjórnendur og starfsmenn spítalans hafi út árið til að gera þær breytingar sem samningurinn kallar á.
Áður hefur verið sagt frá því að samningurinn felur í sér umtalsverðar breytingar á launa- og vinnufyrirkomulagi lækna.
„Miðað við það sem ég hef heyrt þá er þetta engin kollbylta en þetta er samt greinilega nýr samningur frá grunni,“ segir Páll.
Spurður að því hvort breytingarnar muni hafa áhrif á störf annarra stétta, t.d. vaktir, svarar hann: „Það er nú of snemmt að segja til um það. Hins vegar má segja að það er oft verið að breyta vakta- og vinnufyrirkomulagi ýmissa stétta, þannig að það er ekkert nýtt. Og við verðum bara að skoða það á árinu.“
Páll segist ekki hafa heyrt í þeim læknum sem hafa sagt upp störfum á spítalanum á síðustu vikum og mánuðum. Hins vegar hafi verið vísað til þess í einhverjum uppsagnarbréfanna að menn myndu endurskoða afstöðu sína þegar samningur lægi fyrir.
En þarf ákvörðun þessara lækna ekki að liggja fyrir á næstu dögum og vikum?
„Jú. En boltinn er hjá samninganefnd lækna. Þau munu kynna læknum samninginn, það byrjar á föstudaginn og heldur áfram næstu vikurnar, og læknar hafa síðan held ég fram til mánaðamóta til að kjósa um samninginn,“ segir Páll. „Varðandi uppsagnir þá er það alltaf persónuleg ákvörðun en ég vona að samningurinn verði fullnægjandi.“
Páll segir að til viðbótar við nýjan kjarasamning komi tvennt annað til sem hafi áhrif á kjör og starfsaðstæður lækna.
„Annars vegar það að það hefur verið gefið inn allverulega, bæði árin 2014 og 2015, til rekstrar. Og það er verið að skoða ákveðnar leiðir til að tengja framleiðslu spítalans við fjármögnun, þannig að þegar við hlaupum hraðar þá fáum við meira fé, innan ákveðins ramma. Það er verið að reyna að skoða hvernig það er hægt.
Og síðan er hitt innviðirnir. Það að byggja nýbyggingar er eitthvað sem skapar miklu betri aðstöðu og það er verið að setja næstum milljarð inn í hönnun og áframþróun þess verkefnis sem hefur verið kallað Nýr Landspítali. Þetta saman; kjörin, rekstrar- og tækjafé, og síðan fé til innviða og þá einkum nýbygginga; þarna er klárlega verið að stíga skref til uppbyggingar,“ segir Páll.
Páll segir að nú sé hafin skoðun á því hvernig undið verður ofan af biðlistum sem hafa stækkað og myndast á meðan verkfallið stóð yfir.
„Þetta eru 780 aðgerðir og yfir 3.000 daggöngudeildarkomur sem hafa safnast upp og hvernig verður farið í það er bara eitthvað sem við verðum að skoða. Það er verkefni ársins. Það mun kosta 400 milljónir hið minnsta, að vinna þetta upp, og mun taka lungan úr árinu. Hvernig við náum að hagræða til að sinna þessu verkefni verður bara að koma í ljós. Það er oft snemmt að segja. En jafnframt verður forgangsraðað á biðlistum og slíku, þannig að það sé verið að tryggja að þeir sem ekki geta beðið bíði ekki.“
Spurður að því hvort fólk megi vænta þess að fá svör við því á næstunni hvenær það kemst að í þær aðgerðir eða þjónustu sem það hefur beðið eftir, segist Páll vonast til að hægt verði að finna út úr því. Hann segir það þó misjafnt eftir tilfellum.
„Sumir biðlistar þurfa að vera mjög breytilegir og hreyfanlegir, og fólk raðast og færist til á þeim eftir því hvernig breytingar verða á þeirra ástandi. Aðrir eru hins vegar stöðugri, ef svo má segja; þar bíður einstaklingurinn þar til komið er að honum. Þetta er svolítið mismunandi eftir þeim sjúkdómi sem verið er að lækna,“ segir hann.