Tveir menn, sem dæmdir voru til dauða fyrir hryðjuverk, voru teknir af lífi í Pakistan í dag. Pakistönsk yfirvöld stefna að því að taka 500 fanga af lífi á næstu vikum eftir að talibanar drápu um 150 manns, mest börn, í desember.
Í kjölfar árásar talibana á skóla í Peshawar héraði þann 16. desember sem kostaði yfir 130 börn lífið aflétti ríkisstjórn Pakistans banni við því að taka dæmda hryðjuverkamenn af lífi. Síðan banninu var aflétt hafa níu fangar, sem hafa verið dæmdir á grundvelli hryðjuverkalaga, verið teknir af lífi í landinu.
Í dag voru þeir Ghulam Shabbir og Ahmed Ali teknir af lífi en þeir voru liðsmenn Lashkar-e-Jhangvi hryðjuverkasamtakanna. Þeir voru báðir dæmdir til dauða árið 2002 fyrir hryðjuverkadómstólum. Shabbir fyrir að hafa myrt yfirmann í lögreglunni og bílstjóra hans. Ali fyrir að hafa myrt þrjá. Þeir voru hengdir í borginni Multan snemma í morgun.
14 ára pyntaður til sagna á níu sólarhringum
Áætlun stjórnvalda í Pakistan um að hengja 500 fanga á næstu vikum hefur vakið reiði meðal mannréttindasamtaka. Í gær frestuðu yfirvöld aftöku Shafqat Hussain,sem var dæmdur fyrir morð á sjö ára dreng árið 2004 er hann var 14 ára gamall. Var það gert í kjölfar mótmæla mannréttindasamtaka sem gagnrýndu harðlega að taka ætti hann af lífi. Meðal þeirra sem mótmæltu voru bresku mannréttindasamtökin Reprieve en samkvæmt þeim var Shafqat ranglega ákærður fyrir mannrán og morð og var hann dæmdur til dauða á grundvelli eins sönnunargagns, játningar sem fékkst eftir að unglingurinn hafði verið pyntaður og yfirheyrður í níu sólarhringa.
Lögregla sagði Shafqat að hún myndi ekki hætta fyrr en hann játaði. Bundið var fyrir augu hans, honum haldið í einangrun, barinn, gefið raflost og brenndur með sígarettum.
Shafqat segir að hann hefði játað hvað sem var, jafnvel að dádýr væri fíll þegar hann var pyntaður.
Samkvæmt Reprieve voru réttarhöldin yfir honum ekkert annað en farsi. Lögmaður hans hafði engan áhuga á skjólstæðing sínum og hafði ekki einu sinni fyrir því að fá upplýsingar um aldur hans. Ef hann hefði gert það hefði Shafqat ekki verið dæmdur til dauða því það er brot á lögum að taka börn af lífi í Pakistan. Shafqat hefur nú verið 11 ár á dauðadeild.
Mannréttindasamtökin Amnesty International telja að um átta þúsund fangar séu á dauðadeild í Pakistan.