Horfast í augu við uppsafnaðan vanda

Magnús Geir Þórðar­son, út­varps­stjóri.
Magnús Geir Þórðar­son, út­varps­stjóri. Þórður

„Forveri minn sem þarna talar gekk auðvitað í gegnum mjög erfiða tíma með rekstur Ríkisútvarpsins á sínum tíma og þekkir, eins og ég, þær áskoranir sem eru fyrir hendi. Á þeim tímapunkti sem nýir stjórnendur komu að félaginu síðastliðið vor lét stjórn gera sjálfstæða úttekt á fjármálum RÚV og þar blasir við að til staðar er umtalsverður uppsafnaður vandi. Það er úr þeirri stöðu sem stjórn og nýir stjórnendur eru að vinna nú,“ segir Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri í kjölfar ummæla Páls Magnússonar, fyrrverandi útvarpsstjóra í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag.

Í greininni segir útvarpsstjórinn fyrrverandi kyndugt að forystumenn RÚV skuli ekki una nokkuð bærilega við nú þegar rauntekjur frá ríkissjóði aukast um meira en 200 milljónir króna milli 2014 og 2015 en það sé í fyrsta skipti í sex ár sem það gerist.

Mikilvægt að horfa heildstætt á málið

Magnús segir mikilvægt að horfa heildstætt á málið. „Þjónustutekjur RÚV hafa lækkað jafnt og þétt að raunvirði frá árinu 2007 þegar Ríkisútvarpinu var breytt í opinbert hlutafélag og hið opinbera hefur tekið hluta af útvarpsgjaldinu og nýtt í önnur verkefni. Þessar þjónustutekjur hafa ekki dugað til að standa undir þeirri þjónustu sem af félaginu er vænst. Þó að tekjur hækki nú milli áranna 2014 og 2015, þá dugar það því miður ekki til að vega upp á móti þeirri tekjuskerðingu sem félagið hefur gengið í gegnum á undanförnum árum að viðbættum takmörkunum á auglýsingatekjum í nýjum útvarpslögum og auknum lögbundnum skyldum,“ segir hann.

„Einnig liggur fyrir að áfram á að lækka útvarpsgjald umtalsvert um næstu áramót. Stjórn RÚV og nýir stjórnendur vilja horfa á málið heildstætt. Grundvallaratriði er að samræmi sé á milli þjónustunnar sem á að veita og teknanna til að standa undir þeirri þjónustu. Nú er nokkurt misræmi þarna á milli og við því þarf að bregðast. Að óbreyttu stöndum við frammi fyrir umtalsverðri þjónustuskerðingu til að koma í veg fyrir taprekstur á komandi árum.“

Horfast í augu við vandann

Í greininni skrifar Páll: „sjaldan hafa stærri orð fallið af minna tilefni um málefni RÚV“. Hann undrast „harmkvælin“ og spyr hvort menn haldi að svona þvættingur um stöðu mála gagnist RÚV.

Magnús segir stjórn RÚV og nýja stjórnendur einfaldlega vera að horfast í augu við vandann. „Það var dregin upp heildarmynd af stöðunni síðastliðið vor og nú liggur nýtt fjárlagafrumvarp fyrir,“ segir Magnús og bendir á að fjárhagsleg staða Ríkisútvarpsins á tímapunkti stjórnendaskipta liggi fyrir, enda hafi stjórnin látið gera sjálfstæða úttekt á fjárhagsstöðunni eins og komið hafi fram. „Stjórn RÚV og ný framkvæmdastjórn hafa verið algerlega samstiga og reynt að miðla stöðu mála. Einnig hefur stjórn varað við því að lækkun útvarpsgjalds muni leiða til þess að skerða þurfi þjónustu.“

Fékk umboð til að ljúka aðgerðum

Þá segir Páll það hafa verið hermdargreiða við RÚV og starfsmenn þess þegar stjórn RÚV lét stóran hluta af fyrirhugaðri hagræðingu, sem samþykkt var í nóvember 2013, ganga til baka. Hefðu þessar aðgerðir gengið eftir væri komið jafnvægi á rekstur RÚV og rauntekjuaukningin á árinu 2015 öll getað farið í aukna dagskrárgerð.

Magnús segir að hann átti sig nú ekki alveg á því hvað fyrrverandi útvarpsstjóri eigi við með þessum orðum enda liggi fyrir að stjórn hafi veitt þáverandi útvarpsstjóra og framkvæmdastjórn umboð til að ljúka aðgerðum í nóvember 2013 eins og þeir höfðu lagt til. Umræddar aðgerðir hafi gengið eftir eins og hlustendur og áhorfendur urðu varir við undir lok ársins 2013. Eftir að ný framkvæmdastjórn tók við síðastliðið vor hafi þurft að hagræða umtalsvert til viðbótar.

Vinna að því að meta áhrifin 

Magnús segir það vissulega bagalegt að reglulega ríki svo mikil óvissa um rekstur Ríkisútvarpsins. „Gripið var til stórtækra hagræðingaraðgerða fyrir rúmu ári og þá virtist flestum þykja heldur langt hafa verið gengið. Nú rúmu ári síðar blasir við að miðað við núverandi þjónustutekjur og fyrirhugaða frekari lækkun útvarpsgjalds þurfi aftur að grípa til stórtækra aðgerða og skerðingar á þjónustu. Stjórn RÚV benti á það fyrir áramót að til að standa undir áframhaldandi starfsemi á sama grunni og hingað til þyrfti óbreytt og óskert útvarpsgjald. Niðurstaðan úr fjárlagavinnunni var önnur. Þetta er sú staða sem menn eru nú að horfast í augu við og vinna úr.“

Stjórn og stjórnendur RÚV vinni nú að því í samráði við stjórnvöld að meta hver áhrifin eru til næstu ára og næstu skref. „Nú stendur yfir stöðumat og væntanlega verða svo teknar ákvarðanir um næstu skref. Hins vegar er augljóst að rekstur Ríkisútvarpsins, eins og annarra fyrirtækja, þarf að vera í jafnvægi til framtíðar. Við teljum hins afar mikilvægt að þessar ákvarðanir verði allar teknar af yfirvegun, enda mikið í húfi. Okkar markmið er að vinna eins vel úr stöðunni og kostur er. Með samstilltu átaki tekst þá vonandi að leiða Ríkisútvarpið inn í bjartari tíma.“

Páll Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóri.
Páll Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóri. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is