Að minnsta kosti eitt stórt alþjóðlegt olíufyrirtæki mun snúa bakinu við jarðefnaeldsneyti í náinni framtíð vegna hrapandi olíuverðs og loftslagsbreytinga. Þetta er mat fyrrverandi ráðgjafa stórra olíufyrirtækja í loftslagsmálum.
Dr. Jeremy Leggett vann sem ráðgjafi fyrir olíufyrirtæki í aldarfjórðung en hann hefur nú snúið sér að sólarorku. Hann bendir á fyrirtæki eins og Total í Frakklandi sem gæti hætt að reiða sig á jarðefnaeldsneyti eins og hið þýska E.ON hefur tilkynnt að það ætli að gera.
„Eitt af olíufyrirtækjunum mun ganga úr skaftinu og í þetta skipti mun það vera varanlegt,“ segir Leggett og vísar til BP sem áformaði að snúa bakinu við kolefnaeldsneyti en hætti síðar við.
„Olíufyrirtækin eru líka að gera sér grein fyrir að það er ekki lengur siðferðislega verjandi að hunsa afleiðingar loftslagsbreytinga,“ segir hann ennfremur.
Rannsóknir hafa bent til þess að ef menn ætla að takmarka hnattræna hlýnun við 2°C miðað við tímabilið fyrir iðnbyltingu eins og yfirlýst markmið Sameinuðu þjóðanna er þá þurfi að skilja stóran hluta olíu-, gas- og kolalinda heimsins eftir í jörðinni.
Viðtal The Guardian við Jeremy Leggett