Pakistönsk yfirvöld hengdu sjö fanga í dag sem höfðu verið dæmdir til dauða á grundvelli hryðjuverkalaga. Alls hafa sextán fangar verið teknir af lífi í Pakistan frá því stjórnvöld afléttu banni við aftökum hryðjuverkamanna í síðasta mánuði.
Bannið hafði gilt í sex ár er forsætisráðherra Pakistans, Nawaz Sharif, aflétti því í kjölfar fjöldamorða talibana í grunnskóla í Peshawar-héraði. Alls létust 150 í árásinni, þar af 134 börn.
Aftökurnar fóru fram víða um land í dag á sama tíma og utanríkisráðherra Bandaríkjanna, John Kerry, kom til landsins. Hann hefur heitið því að auka öryggis- og leyniþjónustusamstarf ríkjanna.
Einn þeirra sem teknir voru af lífi í morgun er Zulfiqar Ali, sem var dæmdur til dauða fyrir að hafa drepið tvo lögreglumenn í árás sem gerð var á sendiráð Bandaríkjanna í Karachi árið 2003.
Í Punjab-héraði voru tveir fangar teknir af lífi, Mushtaq Ahmed og Nawazish Ali, fyrir tilraun til þess að taka fyrrverandi herforingjann og forseta landsins, Pervez Musharraf, af lífi árið 2003.
Þrír þeirra sem voru teknir af lífi tilheyrðu Ahl-e-Sunnat Wal Jamaat-öfgasamtökunum (ASWJ). Þeir voru dæmdir til dauða fyrir að hafa tekið Syed Zaffar Ali Shah af lífi árið 2003 en hann starfaði í varnarmálaráðuneyti Pakistans á þeim tíma.
Eins var Behram Khan hengdur í morgun fyrir að hafa drepið lögmann á sínum tíma.