Ráðherra vill fjölga virkjanakostunum

Undirbúningsframkvæmdir við Búðarhálsvirkjun hófust árið 2002.
Undirbúningsframkvæmdir við Búðarhálsvirkjun hófust árið 2002. mbl.is/Rax

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segir að það að raforkan sé að verða uppseld, séu bæði góð og slæm tíðindi.

Hún telur nauðsynlegt að fleiri virkjanakostum verði komið á framkvæmdastig.

„Að hluta til var þetta jákvæð frétt, vegna þess að hún sýnir að hjól atvinnulífsins eru farin að snúast, sem kallar á aukna raforkunotkun. Við sjáum aukna eftirspurn í ráðuneytinu,“ sagði Ragnheiður Elín í samtali við Morgunblaðið í gær.

Iðnaðarráðherra segir að það sem menn þurfi að átta sig á, sé að á undanförnum árum á meðan eftirspurn eftir raforku hafi verið að aukast, hafi lítið bæst við framboð raforkunnar. „Að Búðarhálsi frátöldum hefur ekki verið mikið um nýjar virkjanir, þannig að þessi frétt kemur ekki á óvart, en við verðum að taka þessa þróun alvarlega og bregðast við með skilvirkum hætti,“ sagði Ragnheiður Elín.

Ráðherra sagði að skýrt hefði komið fram á haustfundi Landsvirkjunar að nauðsynlegt væri að koma rammaáætluninni aftur í gang, en hún hefði verið alveg stopp síðustu ár. „Ef við horfum á núgildandi rammaáætlun, þá eru nokkrir álitlegir virkjanakostir í nýtingarflokki nú þegar og þar af aðeins tveir í vatnsafli, Hvalárvirkjun og Blönduveita. Hinir kostirnir eru í jarðvarma, að stórum hluta til á Reykjanesi. Ef aðeins þessir kostir væru virkjaðir, þá væru virkjanakostir sem gæfu um átta teravattstundir á borðinu, samanborið við þær 18 TWst sem við framleiðum í dag, en af öllum þessum kostum eru það bara Þeistareykir sem eru komnir á framkvæmdastig,“ sagði iðnaðarráðherra.

Ragnheiður Elín segir að þingsályktunartillaga frá umhverfisráðherra frá í haust sé til meðferðar í þinginu. „Ráðherrann fór að tillögu verkefnisstjórnarinnar um að bæta við efstu virkjuninni í neðri hluta Þjórsár og því er það spurning hvort fleiri virkjanakostum verði bætt í þann hóp, sem ég myndi telja mjög skynsamlegt. Að minnsta kosti Þjórsárvirkjanir,“ sagði ráðherra.

Hún bendir á að þeir virkjanakostir séu skynsamlegir, bæði út frá hagkvæmni og út frá náttúruverndarsjónarmiðum. „Ef það verður niðurstaða þingsins þá erum við komin með fleiri virkjanakosti, sem er nauðsynlegt, þannig að við getum farið að gera áætlanir fram í tímann og koma kostunum á framkvæmdastig.“

Ragnheiður Elín Árnadóttir.
Ragnheiður Elín Árnadóttir. mbl.is/Bragi Þór Jósefsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: