Skaut óvopnaðan mann og grét

Lögreglumaðurinn grætur eftir að hafa skotið manninn til bana.
Lögreglumaðurinn grætur eftir að hafa skotið manninn til bana. Skjáskot af Youtube

Lögreglumaður í Montana í Bandaríkjunum brotnaði niður og grét er hann áttaði sig á því að hann hefði skotið til bana óvopnaðan mann. Myndband af viðbrögðum lögreglumannsins hefur verið birt opinberlega.

Lögreglumaðurinn skaut á manninn sem var í mikilli vímu eftir að hafa neytt metamfetamíns. Atvikið átti sér stað í Billings í Montana.

Myndbandið var meðal gagna sem kviðdómur skoðaði en í kjölfarið tók hann ákvörðun um að ákæra ekki lögreglumanninn.

Lögreglumaðurinn stöðvaði bíl sem maðurinn var í í apríl á síðasta ári. Þrír voru í bílnum. Hann skipaði þeim að koma út úr bílnum með uppréttar hendur en lögreglan segir að einn mannanna hafi ekki hlýtt fyrirmælum og teygt sig í buxnastrenginn.

„Hvað ertu að gera?“ heyrist lögreglumaðurinn spyrja á myndbandinu. „Af hverju ertu að hreyfa hendur þínar svona mikið?“

Svo ítrekar hann skipun sína um að rétta upp hendur. „Ég mun skjóta þig, ég mun skjóta þig. Upp með hendur!“

Í kjölfarið skaut lögreglumaðurinn manninn sem sat í aftursæti bílsins. 

„Ég hélt að hann væri að ná í byssu,“ má heyra lögreglumanninn segja við félaga sinn eftir að hafa skotið manninn.

Krufning leiddi í ljós að maðurinn hafði neytt hættulega mikils magns metamfetamíns.

Meðal annarra gagna sem kviðdómur fékk til skoðunar var sú yfirlýsing lögreglumannsins að hann hefði þekkt manninn þar sem hann hefði tengst nýlegri skotárás.

Samkvæmt frétt AP-fréttastofunnar er þetta ekki í fyrsta sinn sem lögreglumaðurinn skýtur mann til bana við umferðareftirlit. Í fyrra skiptið var skaut hann mann sem var vopnaður loftbyssu. Hann var ekki ákærður fyrir það.

Frétt Sky um málið

mbl.is