Thandi, nashyrningur sem veiðiþjófar stórsköðuðu og var nær dauða en lífi, hefur nú eignast heilbrigðan kálf. Thandi varð fyrir árás veiðiþjófa í Suður-Afríku árið 2012 og eftir hana tók við langt bataferli. Það eru því miklar gleðifréttir að hún skuli nú hafa eignast afkvæmi, ekki síst vegna þess að stofninn á undir högg að sækja. Í fyrra voru um 1000 nashyrningar felldir í Suður-Afríku.
Kálfurinn fæddist á þriðjudag. Um leið og hann gat gengið fór Thandi með hann afsíðis í þjóðgarðinum Kariega þar sem hún býr.
Það tók Thandi langan tíma að fara að treysta fólki aftur í kjölfar árásarinnar. Í árásinni var horn hennar sagað af og hún svo skilin eftir í blóði sínu ásamt tveimur karlkyns nashyrningum. Annar þeirra drapst strax og hinn lifði aðeins í fáar vikur.
Nafnið Thandi þýðir „sú sem er elskuð“ á tungumáli innfæddra, isiXhosa. Það tók hana um þrjú ár að jafna sig og þurfti hún að gangast undir margar skurðaðgerðir.
Thandi og kálfinum heilsast vel. Ekki er enn búið að nefna kálfinn.