„Það er ótrúlegt að fylgjast með Hringi (svarti og hvíti kötturinn) í kringum aðra ketti. Hann nuddar sér upp við þá og þvær þeim. Hringur er u.þ.b. þriggja ára fress, mjög blíður og kelinn,“ segir um köttinn Hring á Facebook-síðu Kattholts. Hér að neðan má sjá myndskeið af honum að þrífa vini sína í athvarfinu.
Hringur er einn fjölda heimilislausra katta sem bíða þess að verða ættleiddar á góð heimili á Íslandi.
Yfirleitt er ekki hægt að fá kisu með sér heim samdægurs, stendur á Facebook-síðu Kattholts, heldur þarf að bíða í nokkra daga á meðan kisan er send í geldingu/ófrjósemisaðgerð, örmerkingu og ormahreinsun.
Ef þið hafið einhverjar spurningar, hafið samband í síma 567-2909 eða lítið við í Kattholti í Stangarhyl alla virka daga kl. 14-16.