Gróðavænlegt að láta heiminn fara til helvítis

Randers segir hið kapítalíska kerfi ekki ráða við að beina …
Randers segir hið kapítalíska kerfi ekki ráða við að beina fjárfestingum í verkefni eins og vind- og sólarorku sem heimurinn þarfnast. AFP

Lýðræðið er ekki í stakk búið til þess að taka á víðtæk­um vanda­mál­um eins og hnatt­rænni hlýn­un vegna þess að skamm­tíma­hagnaður ræður för hjá stjórn­mála­mönn­um og al­menn­ingi. Þetta er mat Jør­gen Rand­ers en hann var einn af fyrstu mönn­un­um til að vara við tak­mörk­un­um hag­vaxt­ar í heimi með end­an­leg­ar auðlind­ir.

Rand­ers var einn höf­unda skýrsl­unn­ar „Tak­mörk vaxt­ar“ sem gef­in var út árið 1972. Þar var lýst hvaða áhrif efna­hags­vöxt­ur og fólks­fjölg­un hefði á plán­etu sem hefði end­an­legt magn auðlinda. Hann er pró­fess­or í lofts­lags­stjórn­un við Norska viðskipta­skól­ann.

Hann seg­ist oft hafa verið nærri því að gef­ast upp á að vekja heim­inn til meðvit­und­ar um hætt­una sem steðjar af lofts­lags­breyt­ing­um. Stjórn­mála­menn úr öll­um flokk­um hafi all­ir brugðist þrátt fyr­ir að vís­inda­leg­ar sann­an­ir fyr­ir hnatt­rænni hlýn­un hrann­ist upp. Hann hef­ur því tapað trúnni á að lýðræðið sé í stakk búið til að taka á vanda­mál­inu.

„Það er hag­kvæmt að fresta alþjóðleg­um lofts­lagsaðgerðum. Það er gróðavæn­legt að láta heim­inn fara til hel­vít­is. Ég held að harðstjórn skamm­tíma­sjón­ar­miða eigi eft­ir að vera ofan á næstu ára­tug­ina. Þar af leiðandi verða mörg vanda­mál til lengri tíma litið ekki leyst, jafn­vel þó að það hefði verið hægt og á sama tíma og þau valda öll­um kjós­end­um sí­fellt meiri vand­ræðum,“ seg­ir Rand­ers í viðtali við sænska tíma­ritið Extrakt.

Lengi kjör­tíma­bil stjórn­mála­manna

Ástæðuna fyr­ir skamm­sýn­inni rek­ur Rand­ers til þess að ábati lofts­lagsaðgerða verði ekki merkj­an­leg­ur fyrr en eft­ir tutt­ugu ár. Slík­ar aðgerðir myndu engu að síður skila af­kom­end­um okk­ur betra lofts­lagi. Þá seg­ir hann hið kapí­talíska kerfi ekki hjálpa til.

„Kapí­tal­ism­inn er sér­stak­lega hannaður til að veita fé til gróðavæn­leg­ustu verk­efn­anna. Það er ein­mitt ekki það sem við þurf­um núna. Við þurf­um fjár­fest­ingu í dýr­ari vind- og sól­ar­orku, ekki í ódýr­um kol­um og gasi. Kapí­talíski markaður­inn mun ekki gera þetta á eig­in spýt­ur. Hann þarf aðrar aðstæður, breyt­ingu á verði eða regl­um,“ seg­ir Rand­ers.

Ein af aug­ljós­ustu leiðunum sé að setja kol­efn­is­gjald á fyr­ir­tæki svo þau þurfi að taka los­un gróður­húsaloft­teg­unda inn í kostnað sinn. Rand­ers tel­ur þó að marg­ir kjós­end­ur verði treg­ir til að greiða meira fyr­ir hlut­ina.

Rand­ers tel­ur að ein skyn­sam­leg leið til að taka á stóru vanda­máli eins og lofts­lags­breyt­ing­ar eru sé að lengja kjör­tíma­bil stjórn­mála­manna. Það myndi gefa þeim svig­rúm til að hrinda óvin­sæl­um aðgerðum í fram­kvæmd án þess að þurfa að ótt­ast að tapa næstu kosn­ing­um.

Viðtal Extrakt við Sand­ers

mbl.is