Nauðsynlegt er að leggja gjald á brennslu kolefna og skilja stóran hluta af jarðefnaeldsneytisforða jarðarinnar eftir óhreyfðan, að mati Al Gore, fv. varaforseta Bandaríkjanna. Hann segir olíufyrirtæki heims vilja halda rétti sínum til að nota andrúmsloft jarðar eins og holræsi.
Í samtali við breska blaðið The Guardian á efnahagsráðstefnunni í Davos í Sviss sagði Gore, sem hefur verið ötull baráttumaður í umhverfismálum undanfarin ár, að almenningur yrði að þrýsta á um aðgerðir í loftslagsmálum. EKki væri hægt að halda áfram á sömu braut og brenna olíu, kolum og gasi sem valda hnattrænni hlýnun og loftslagsbreytingum.
„Fyrirtækin standa fast á rétti sínum til að nota andrúmsloftið okkar eins og opið holræsi. Í London fyrir mörgum árum tengdi frægur læknir saman skolp og malaríu. Núna erum við að tengja saman óhreina orku og óhrein veður og til þess að knýja á um þær uppbyggilegu aðgerðir sem eru nauðsynlegar þá þurfum við að setja verðmiða á kolefni,“ segir Gore sem sjálfur hefur fjárfest í endurnýjanlegum orkugjöfum.
Breski hagfræðingurinn Stern lávarður, sem gaf út fræga skýrslu um hagræn atriði sem varða loftslagsbreytingar árið 2006, segir það ekki koma á óvart að forsvarsmenn olíuiðnaðarins reyni að verja sinn hlut. Það sé hins vegar ómögulegt að brenna öllu jarðefnaeldsneyti jarðarinnar á hræðilegra afleiðinga.
Meðalhiti jarðar hafi ekki hækkað um 3°C í þrjár milljónir ára og tugir milljóna ára séu síðan hann hækkaði um 4°C. Það sé hins vegar sá raunveruleiki sem jarðarbúar standi frammi fyrir miðað við núverandi losun gróðurhúsalofttegunda.
„Það eru margir í jarðefnaiðnaðinum, í olíu, gasi og kolum, sem vilja trúa því að þeir verði í ráðandi stöðu í orkumálum næstu öldina. Það sem þeir leggja til væri brjálæði og glæfralegt þannig að spurning er hversu hratt verður þrýst á um að eitthvað annað verði gert í staðinn,“ segir Stern.
Viðtal The Guardian við Al Gore og Stern lávarð