„Mér heyrðist ræða borgarstjóra vera svona tilfinningaklámsþrungin og aðallega um eitthvað í fortíðinni,“ sagði Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og flugvallarvina, í umræðu um flugbraut NA-SV 024 á Reykjavíkurflugvelli. Hún sagði Dag B. Eggertsson, borgarstjóra Reykjavíkur, í ræðu sinni hafa svarað öllu öðru en því sem hún tók fyrir í framsöguræðu sinni.
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins og flugvallarvina fóru fram á að umræðan yrði tekin á borgarstjórnarfundi í gær. Guðfinna Jóhann sagði ástæðu þess þá að „svokölluð neyðarbraut gerði gæfumuninn 8. janúar síðastliðinn í sjúkraflugi og tryggði að innanlandsflug raskaðist lítið í snarpri suðvestanáttinni sem ríkti þann dag.“
Í ræðu sinni gerði Dagur athugasemd við að flugbrautin væri kölluð neyðarbraut. „Ég tek eftir því að frummælandi notar orðið neyðarbraut um þessa braut og það hefur verið gert nýverið, en það er tiltölulega nýtt satt best að segja. Reyndar er það alveg rétt að það er strangt kveðið á um það í reglum um notkun flugvallarins að þessa braut eigi aðeins að nota í neyð, og byggir það á áhættumati sem að, eða mati sem kom fram í skýrslu frá árinu 1999, að það væri áhættusamt að nota brautina. Þannig að kannski væri réttara að kalla þetta aukabraut sem notuð er í neyð,“ sagði Dagur.
Dagur vísaði síðar aftur í umrædda skýrslu frá 1999 og sagði að það hefði verið sameiginleg niðurstaða þeirra sem að henni komu, sem voru lykilaðilar í flugi, að loka bæri brautinni. Í skýrslunni sagði: „Að öllu samanlögðu verði að telja að mest áhætta sé tekin með notkun NV-SV brautar og að tvímælalaust beri að loka henni. Auk þess sem brautin hefur hverfandi vægi í notagildi flugvallarins.“
Vegna þess að Guðfinna Jóhanna nefndi að sjúkraflug hefði gert gæfumuninn 8. janúar sagði Dagur að svo virðist sem að í sjúkrafluginu liggi hjarta þeirra hagsmunaaðila sem eignast hafi málssvara í borgarstjórn, s.s. í borgarfulltrúum Framsóknarflokks og flugvallarvina.
Í því ljósi minnti Dagur á að miðstöð sjúkraflugsins er á Akureyri og gerist það að einhver veikist á Ísafirði, Egilsstöðum eða annars staðar á landinu þá taki sjúkraflugvélin á loft á Akureyri og þurfi eftir það að lenda á umræddum stöðum. „Ef nýtingastuðlar flugvallanna sem sjúkraflugvélin lendir á vega svona þungt og standa hagsmunaaðilum svona nærri ætli þeir hefðu þá ekki varið miklum tíma í að fjalla um nýtingahlutfall Akureyrarflugvallar en sérstaklega flugvallanna á Ísafirði, Egilsstöðum, í Vestmannaeyjum og á Höfn í Hornafirði? Ég hugsa það. Því ef umræðan snerist um sjúklinga á þessum stöðum þá þarf að byrja á að lenda þar og svo á Reykjavíkurflugvelli þar sem nýtingahlutfall á tveimur brautum er yfir 97%.“
Dagur vísaði einnig til þess að svar innanríkisráðherra hefði verið lagt fram á Alþingi við fyrirspurn um nothæfisstuðul flugvalla á Íslandi. Í svarinu kemur fram að nothæfisstuðlar hafi ekki verið reiknaðir fyrir aðra flugvelli á Íslandi en Keflavíkurflugvöll og Reykjavíkurflugvöll. „Það hefur enginn áhuga á því. Út af hverju? Ef nýtingahlutföll valla þar sem sjúkraflugvél þarf að lenda skiptir svona miklu máli.“
Hann sagðist verða svolítið ruglaður þegar hagsmunaaðilar í flugi beita sér svona hart með því að draga sjúkraflugið inn í myndina en þessi göt komi svo fram í málflutningnum. Ef hagsmunaðilar í flugi hugsuðu fyrst og fremst um hagsmuni sjúklinga þá væru þeir að tala um nýtingahlutfall á öðrum flugvöllum áður en kemur að Reykjavíkurflugvelli.
Guðfinna Jóhanna svaraði ræðu Dags. Hún sagði það staðreynd að Landspítalinn er í Reykjavík og „það eru ríkjandi vindáttir á Ísafirði og Egilsstöðum en það á ekki við um Reykjavík.“ Þá sagðist hún bara vilja að það liggi ljóst fyrir hvort það hafi í för með sér hættu að loka „þessari neyðarbraut. Flóknara er það ekki.“