„Hefur þú eitthvað að segja litla rotta“

Nálgunarbannið var fellt úr gildi.
Nálgunarbannið var fellt úr gildi. mbl.isKristinn Ingvarsson

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur sem felldi úr gildi ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 8. janúar 2015 um að karlmaður sæti nálgunarbanni í hálft ár. Þóttu atvik máls óljós og rannsókn lögreglu ekki nægileg til þess að hægt væri að fallast á nálgunarbannið.

Konan hefur meðal annars kært manninn fyrir fjölmörg eignarspjöll, t.d. að sprengja dekk á bifreið hennar og setja vatn á bensíntankinn. Einnig fyrir að hóta henni líkamsmeiðingum og falsa umboð í nafni hennar til þess að geta fengið upplýsingar frá stjórnvöldum.

Beiðni konunnar um nálgunarbann 25. júní 2013 var hafnað.

Lögreglustjóri vísaði til þess að meðal gagna málsins sé upptaka af samtali mannsins við tvo tiltekna einstaklinga frá 11. desember 2014. Í því samtali komi fram hótanir í garð bæði konunnar og sonar hennar. Á upptökunni segi maðurinn að ef konan verði á Íslandi muni hún ekki fá frið. Það skipti engu máli hvar í heiminum hún verði, hann muni finna hana. Aðspurður segist maðurinn ætla að ganga frá henni.

Við skýrslutöku hjá lögreglu sýndi konan myndskeið sem hún tók af því þegar maðurinn ók fram hjá heimili hennar stuttu áður. Á einum stað í myndskeiðinu sést maðurinn skrúfa niður rúðuna og segja: „Hefur þú eitthvað að segja litla rotta“.

Konan segir að maðurinn hafi byrjað að ofsækja hana fyrir tveimur árum síðan, en deilur þeirra má rekja til fasteignaviðskipta.

Í forsendum héraðsdóms, sem Hæstiréttur vísaði til í dómi sínum, segir að gögn málsins beri með sér að töluvert ósætti hafi verið milli karlmanns og konu síðustu misserin. Þótti af gögnunum mega ráða að ósættið lúti fyrst og fremst að íbúð sem maðurinn heldur fram að konan hafi haft af honum.

„Varnaraðili hefur fullyrt að hann hafi einungis hitt brotaþolann B einu sinni á síðastliðnu einu og hálfu ári. Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en sú fullyrðing geti mögulega verið rétt. Að gögnunum virtum þykir engu verða slegið föstu um það að varnaraðili hafi framið refsivert brot gegn drengnum og þá verður ekki séð að varnaraðili hafi á annan hátt raskað friði brotaþolans í skilningi a-liðar 4. gr. laga nr. 85/2011. Þá liggur heldur ekki fyrir að hætta sé á að varnaraðili brjóti gegn honum samkvæmt tilvitnuðu ákvæði, sbr. b-lið 4. gr. laganna,“ segir í niðurstöðu héraðsdóms.

Þá segir að virtum framlögðum gögnum verði engu slegið föstu um réttmæti ásakana konunnar auk þess sem málsatvik séu um margt á huldu og rannsókn á síðustu kæru konunnar ekki lokið. „Verður hvað það atvik varðar sérstaklega til þess að líta að lýsing sú sem höfð er eftir brotaþola í frumskýrslu er a.m.k. á einu mjög veigamiklu atriði önnur en í framburðarskýrslu hennar fyrir lögreglu degi síðar.“

Er þar vísað til þess að konan hélt því fram í framburðarskýrslu að maðurinn hefði ógnað henni með skammbyssu, en það nefndi hún ekki í frumskýrslu.

mbl.is