Búið er að birta myndband sem sýnir þegar lögreglumaður í New Jersey skýtur svartan mann til bana. Hann var þá að koma út úr bíl sínum með uppréttar hendur.
Jerame Reid var farþegi í bíl sem lögreglan stöðvaði fyrir að hafa ekið gegn stöðvunarskyldu án þess að hægja á sér.
Áður en lögreglan hleypir af skoti heyrist annar lögreglumaður segja að hann hafi séð byssu.
Bylgja mótmæla hefur verið í Bandaríkjunum undanfarna mánuði vegna fjölmargra mála þar sem hvítir lögreglumenn hafa skotið svarta, oft óvopnaða, karlmenn til bana. Einn þeirra lögreglumanna sem komu að málinu í Bridgeton í New Jersey er svartur segir í frétt BBC um málið.
Myndbandið sem er birt er tekið úr öryggismyndavél lögreglubíls. Á því má sjá lögreglumenn nálgast bílinn og einn þeirra segjast sjá byssu í hanskahólfinu.
Lögreglumaður heyrist kalla að Jerame Reid: „Ef þú teygir þig í eitthvað, þá verður þú drepinn.“
Lögreglumaðurinn teygir sig svo inn í bílinn og tekur út það sem virðist vera skammbyssa. Á sama tíma kemur Reid út úr bílnum, tómhentur, með uppréttar hendur.
Tveir lögreglumenn skutu á hann nokkrum skotum.
Atvikið átti sér stað hinn 30. desember.