Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands kom saman til fundar í Karphúsinu í dag til að ganga frá kröfugerð í komandi kjaraviðræðum. Kröfugerðin verður ekki kynnt fyrr en loknum fundi með Samtökum atvinnulífsins næsta mánudag.
Formenn 16 aðildarfélaga SGS sitja í samninganefnd en þrjú félög til viðbótar, Flóabandalagið svonefnda, gengur frá sinni kröfugerð seinna í mánuðinum.
Björn Snæbjörnsson, formaður SGS, segir að kröfugerðin verði ekki kynnt opinberlega fyrr en loknum fundi með samninganefnd Samtaka atvinnulífsins næstkomandi mánudag.
„Þetta var mjög góður fundur og mikil samstaða á honum. Fundurinn gefur góðan tón fyrir það sem koma skal. Við göngum bjartsýn til leiks um að gengið verði að okkar kröfum en erum jafnframt tilbúin í átök,“ segir Björn.
Eins og fram kom í Morgunblaðinu og á mbl.is í gær þá er þungt hljóð í forystu verkalýðshreyfingarinnar. Áhersla er lögð á að hækka lægstu launin og miða lágmarkslaun við 300 þúsund krónur, sem eru talin formleg framfærsluviðmið. Krafa er uppi um að hækka skattleysismörkin, samkvæmt heimildum mbl.is, og leggja áherslu á krónutöluhækkanir.